Raunar er Kaupmannahöfn Margrétar drottningar á okkar dögum en þar sátu kóngar Íslendinga í nokkrar aldir. Þá var hún höfuðborg Íslands og þangað lágu allar leiðir. Ekki þarf að ganga lengi um miðborgina að ekki blasi við slóðir og arfleifð Íslendinga fyrr á tíð og enn búa nokkur þúsund landsmanna í Kaupmannahöfn og næsta nágrenni við nám og störf.
Kaupmannahöfn er án efa ein fallegasta og skemmtilegasta borg Evrópu og þótt víðar væri leitað. “Dejlig” er lausnarorðið sem sameinar dásemdir borgarinnar: Strikið, Tívolíið, Nýhöfn, Dyrhavsbakkann, Kristjánsborgarhöll, smörrebrauðið, pylsurnar á Ráðhútorginu, Sívalaturn, Okkar Frúar kirkju, Hvids ölstue, litlu hafmeyjuna, flottar hjólaleiðir, yfir 100 söfn, Hróarskeldu og kastala í nágrenninu, sem og Svíaríki handan Eyrarsundsbrúarinnar.
Upptalning á borð við þessa lýkur aldrei en vart verður hjá því komist að nefna til sögunnar danska eldhúsið og fjölmörg veitingahús, urmul ölstofa og skemmtistaði. Og römm er sú taug sem tengir Íslendinga við fyrrum höfuðborg sína og sumir halda því fram að arður Dana af Íslandsverslun hafi runnið til uppbyggingar stórs hluta miðborgarinnar. Kannski við eigum eitthvað inni hjá danskinum! En það mega Danir eiga, að þeir hafa byggt firnafallega borg við Sundið.
Kaupmannahöfn er full af lífi og fjöri allt árið um kring og þar finna allir eitthvað við sitt hæfi hvort sem um er að ræða tónlistarviðburði eins og óperuflutning, jazz klúbba eða tónleika heimsfrægra flytjenda. Margar skemmtilegar sérverslanir eru í litlum strætum umhverfis. Auðveldlega er hægt að gleyma sér í leit að gulli og gersemum og enda í smörrebröd við Nýhöfn.