Saga Úrval Útsýn og Ferðaskrifstofu Íslands

Ferðaskrifstofa Íslands ehf.  er ein stærsta ferðaskrifstofa landsins sem samanstendur af Úrval Útsýn, Sumarferðum,  Plúsferðum og Iceland Travel Bureau (Iceland Beyond).  Fyrirtækið hefur selt landsmönnum ferðir til útlanda allt frá árinu 1955.  

Ferðaskrifstofa Íslands ehf.  í núverandi mynd, má rekja til kaupa Úrval Útsýn á Ferðaskrifstofu Íslands hf.  í október 1998.  Saga fyrirtækisins er þó talsvert lengri, því hún nær allt aftur til ársins 1936, þegar Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð, en hún hafði einkarétt á starfrækslu slíkrar skrifstofu fyrir erlenda ferðamenn.  Árið 1977 lagði nefnd um minnkun ríkisumsvifa fram þá tillögu að ferðaskrifstofunni yrði komið úr umsjón ríkisins.  Það var þó ekki fyrr en árið 1985 að lög voru samþykkt á Alþingi, sem heimiluðu ríkisstjórninni að beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er taka skyldi við þáverandi rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins.  Hinn 1. október 1988 tók svo Ferðaskrifstofa Íslands hf. við rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins. 

Ingólfur Guðbrandsson stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn árið 1955 sem þá var til húsa í Austurstræti 17 í Reykjavík.  Var Ingólfur forstjóri hennar til ársins 1988.  Árið  1970 var önnur ferðaskrifstofa opnuð sem bar nafnið Úrval og var til húsa í Pósthússtræti 13.   Flugleiðir og Eimskip voru eigendur hennar.  Ferðaskrifstofuna Úrval Útsýn í núverandi mynd má svo rekja til sameiningu ferðaskrifstofanna Úrvals og Útsýnar, en þá var nafni ferðaskrifstofunnar breytt í Úrval Útsýn.  

Síðar keypti Úrval Útsýn Ferðaskrifstofu Íslands og þá var nafni fyrirtækisins breytt úr Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn í Ferðaskrifstofu Íslands ehf., þannig að með réttu má rekja söguna alla leið aftur til ársins 1936 þegar Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð. Því má því með sanni segja að saga ferðaskrifstofunnar Úrval Útsýn sé samofin ferðalögum Íslendinga til útlanda frá fyrstu tíð.  Ferðaskrifstofan Sumarferðir var stofnuð árið 2003.  Árið 2006 kaupa Sumarferðir Ferðaskrifstofu Íslands ehf. 

Hjá Ferðaskrifstofu  Íslands ehf.  starfa um 30 manns. Elsti núverandi starfsmaður félagsins hefur unnið hjá fyrirtækinu rúm 40 ár.  Fyrirtækið starfar á hörðum samkeppnismarkaði,  en þrátt fyrir það hefur það fest sig vel í sessi sem ein öflugasta ferðaskrifstofa landsins.

Í dag byggir ferðaskrifstofan svo sannarlega á þeirri reynslu og hefð,  sem safnast hefur saman í gegnum árin. Starfsfólk ferðaskrifstofunnar hefur dýrmæta reynslu í skipulagningu ferða um allan heim,  en skrifstofan hefur á að skipa einvalaliði sem tekur vel á móti viðskiptavinum sinum.

Sérfræðingar félagsins kappkosta að finna hagstæðustu og þægilegustu ferðina fyrir viðskiptavini sína.   Það er keppikefli félagsins að bjóða upp á fjölbreytta og faglega þjónustu á öllum sviðum.   Það á við um hvort sem ferðinni er heitið í afslöppun í sól, skemmtiferðasiglingu, skíðaferð, viðskiptaferð, borgarferð eða hópferð í verslunar- og skemmtiferð með vinum eða vinnustaðnum.