Þessi ferð um Víetnam, Kambódíu og Laos er bæði víðfem og djúp og fjölbreytileikinn mikill. Strax og komið er til Víetnam vakna upp minningar úr bókum og kvikmyndum um fjarlæga asíska staði. Trjónusniðnir basthattar, þokkafullir silkisíðkjólar, mannmergðin og ös hjóla og bíla á götunum, framandi matarlykt og margslunginn hljómur umhverfisins. Kambódía er annar og ólíkur kafli. Hér er að finna þjóð ólíka öllum sínum nágrönnum með tungu af fjarlægum uppruna og sögu veldis sem er óviðjafnanleg um veröld alla því mannvirkin við Angkor eru engu lík og andblærinn í landinu svo hlýr og heillandi. Svo er það Laos. Það er sko allt önnur Ella. Fólk verður yfirleitt strax hvumsa við komu því þó við vitum svo lítið um þetta landlukta ríki þá höfðum við ekki hugmynd um að Sjangríla væri í raun til og héti Laos. Staður þar sem tíminn virðist ekki líða og kyrrðin er dýpri en sumarnótt í Flatey.
Þegar frakkar réðu Indókína sögðu þeir:
Víetnamar sá hrísgrjónum
Kambódíumenn horfa á þau vaxa
Laosbúar hlusta á þau vaxa
Velkomin til Indókína!
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, 13 nætur á 4 stjörnu gistingu með morgunverði, íslensk fararstjórn, og flogið með Thai Airways og Icelandair, allur akstur á milli flugvalla og gististaða eins og tilgreint er í ferðalýsingu, tilgreindar skoðunarferðir auk aðgangseyris, hálft fæði, þjónusta erlendra leiðsögumanna.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum(áætlað um 100$), eða þjórfé persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt sérstaklega hér að framan.
Ferðalýsing
Hér er boðið upp á stórkostlega ferð sem opnar undur og ævintýri, sögu og menningu þriggja skyldra en um leið gjörólíkra þjóða. Víetnam, Kambódíu og Laos. Þrjú lönd sem saman hafa oft verið nefnd Indókína og þekja austurhluta meginlands Suð-Austur Asíu.
Frakkar réðu þessum landsvæðum sem nýlendum sínum og nefndu Franska Indókína og er það viðurnefni byggt á hugmyndum sem ríktu á þeim tíma um að öll menning á þessum slóðum væri annað hvort uppruninn á Indlandi eða í Kína en meginland Suð-austur Asíu liggur á milli þessara fornu velda.
Þessi ferð er vandlega tálguð og sniðin að því að opinbera það athyglisverðasta í hverju landi. Val okkar á áfangastöðum og tilhögun allra ferða er byggð á einstakri reynslu og þekkingu Asíferðadeildar Úrval Útsýn.
Áhersla er lögð á að allur viðgjörningur sé til fyrirmyndar. Hótelin eru valin af kostgæfni m.v. staðsetningu, sjarma og þjónustu. Keppst er við að finna veitingastaði sem opinbera ekki bara einstaka matargerð hvers staðar heldur einnig þá menningu sem tengist matargerðinni og því mannlífi sem hún er sprottin úr. Matseðlar eru sérvaldir því hvert landsvæði býr yfir sínum sérkennum í mat og drykk sem kynnt verður ferðalöngum.
Vel staðsett og þrautreynd hótel krýnd fjórum stjörnum, elegans og sjarma hafa verið valin sem bækistöðvar leiðangursmanna.
Víetnam
Ferðin hefst í Saígon, borg sem státar af einstakri blöndu af hraðri uppbyggingu og rómantískum nýlendutíma. Hún er heillandi og margslungin borg, með breiðstræti og borgarmynd sem minnir á viðveru Frakka er þeir gerðu Saígon að höfuðstað Franska-Indókína.
Görótt og fornt kínahverfi, Notre Dame-kirkjan og óperuhús hannað af Alberti Eiffel, götumarkaðir um öngstræti og urmull veitingastaða og verslana eru meðal helstu einkenna Saígon-borgar.
Frá Suður-Víetnam er flogið til Mið-Víetnam að bænum Hoí An þar sem við tekur þriggja daga sæld. Hoí An er draumkenndur staður. Gamall og vel varðveittur bær sem ber vitni um dvöl Japana og Kínverja sem stunduðu verslun við heimamenn í bænum. Kyrrlát stræti, fallegt handverk sem selt er í gömlum verslunarhúsum og fjölbreytt úrval öndvegis matsölustaða einkennir Hoí An.
Rétt við Hoi An eru menjar um dýrlega menningu Chamfólksins sem byggðu þetta svæði á miðöldum. My Son nefnist safn hofa og grafhýsa sem reist voru á 4. til 14. öld og tilheyrðu því ríki sem nefnt hefur verið Champa. Því miður hafa margar byggingarnar mikið látið á sjá af tímans tönn en ekki síður af völdum bandaríkjamanna sem vörpuðu feykilegu magni sprengja á svæðið í Ameríska(Víetnam)stríðinu.
En Hoí An státar ekki bara af menningu og bæjarsjarma, því þar er einnig að finna góða baðströnd. Dvalið er í hóteli skammt frá ströndinni þaðan sem stutt er í bæinn. Frá Hoi An er flogið til Kambódíu þar sem allt annar heimur bíður leiðangursmanna.
Kambódía
Í Kambódíu mætum við Angkor. Hvar skal byrja ef lýsa á þeim undrum? Enn í dag hefur hvergi í heiminum verið reist stærri trúarleg bygging en Angkor Wat. Hofið var byggt í upphafi 12. aldar – fyrir um 900 árum. Stórkostleg er saga veldis Khmera sem stóð yfir um 600 ár og náði yfir stóran hluta af meginlandi Suðaustur-Asíu. Hagsæld khmeranna byggðist mikið upp á vatni, þá með snjöllu áveitukerfi og uppistöðulónum sem gerðu mönnum kleift að rækta hrísgrjón allt árið um kring. Í þessu blómlega og öfluga ríki voru reist hof og hallir sem eiga sér enga hliðstæðu í víðri veröld. Steinlagðir vegir lágu til Taílands með ríkisgistiheimilum og sjúkrahúsum. Turnar hofanna voru gullhúðaðir eða steyptir í kopar og að hirðinni safnaðist óviðjafnanlegur auður í gulli og dýrgripum. Fjölmennt var í ríkinu og þegar hæst stóð bjuggu um ein milljón manna í Angkor-borginni, en á sama tíma voru 50.000 manns í Lundúnum. Kröftugur her varði ríkið og haslaði sér völl til stranda Víetnam, inn til fjalla Laos og vestur að landamærum Búrma um Taíland.
Bækistöð leiðangursmanna við skoðun á Angkor verður í bænum Siem Reap, rétt við verndarsvæði Angkor. Sá bær er mikið ævintýri út af fyrir sig, með skrautlegum næturmörkuðum, gömlum miðbæ í frönskum nýlendustíl, fjölbreyttri flóru veitingastaða og litríku næturlífi.
Laos
Meðal landa í álfunni lætur Laos ekki mikið yfir sér. En mitt í geysilegri náttúrufegurð frumskóga og fjalllendis leynist gimsteinn sem verðskuldar svo sannarlega sess sinn á Heimsminjaskrá UNESCO. Það er hin seiðmagnaða borg Luang Prabang, en heimsókn þangað lætur engan ósnortinn. Þar eru á hverju strái minjar um ævaforna sögu, menningu, búddisma og byggingarlist líkt og tíminn hafi staðið í stað öldum saman.
Óvíða er að finna eins vel varðveitta og kjarngóða samsuðu menningararfs og myndrænna mustera — að ekki sé minnst á minnisvarða um nýlenduveldi Frakka í Indókína. Það er lýsandi fyrir þennan samhljóm ólíkra menningarheima að á milli heimsókna í hof og musteri bregður maður sér inn í ekta franskt bakarí og gæðir sér á ferskri bagettu. Útkoman er ekki bara sannkölluð veisla fyrir skilningarvitin heldur er afslappað andrúmsloftið, auðmjúkt viðmót og lífsgleði innfæddra líka nærandi fyrir æði og anda aðkomumanna.
Um ferðatilhögun; flug, hótel og veitingar
Þegar flogið er um 7 tímabelti austur um hálfan hnött í langflugum er mikilvægt að velja sem besta flugleið og flugfélög. Við kjósum að fljúga með Icelandair og Thai Airways flugfélaginu sem er talið eitt allra best flugfélag í heimi. Farið er um Kaupmannahöfn og Bangkok á leiðinni til Saígon. Lagt af stað að morgni laugardagsins 16. Nóvember eða kl 07:45. Eftir stutt stopp í Köben er flogið kl. 13:50 áfram austur og stoppað í morgunsárið í Bangkok áður en síðasti leggurinn er farinn á milli 07:45 og 09:15 þegar lent er í Víetnam.
Heimflugið er frá Luang Prabang í Laos á hádegi eða 12:15-14:30 til Bangkok þaðan sem flogið verður á miðnætti heim um Köben. Við grípum tækifærið og förum inn í Bangkok þar sem borgin er rannsökuðu í stuttri síðdegisferð og eftir góðan kvöldverð – kveðjukvöldverð – er flogið heim kl 00:05 og lent í Köben 06:35.
Síðasti spölurinn er flug Icelandair kl 13:05 heim til Íslands þar sem lent verður 15:25.
Flugin eru á einum flugmiða svo tengingar eru á ábyrgð Thai Airway og hægt er að innrita farangur alla leið. Leyfður er 23 kg farangur auk handfarangurs.
Innan Asíu er flogið með traustum og góðum flugfélögum og eru allir flugleggir stutti eða um klukkustund.
Mottó ferðarinnar er að opna fólki þessi fjarlægu lönd með öllum sínum sérkennum, sjarma og framandleika, hvort heldur í mat eða drykk, hvað menningu og náttúru varðar eða mannlíf og sögu áhrærir.
Öll löndin bjóða upp á ævintýralega matarmenningu, ekki eru það bara hinar asísku kræsingar sem bíða ykkar, heldur einnig hinn franski keimur sem víða finnst eftir langa veru nýlenduherranna í Franska Indókína.
Lögð verður áherslu á að ferðalangar fari hvergi á mis við hið stóra ævintýri sem hægt er að finna á diskum heimamann. Fö súpan kröftuga í Víetnam verður margreynd, hinar fersku hrísgrjónapappírsrúllur með grænmeti eða skelfisk og krassandi dýfum er spennandi og algengt lostæti eða grillréttir og ferskt sjávarfang bæði á einföldum alþýðustöðum eða uppdubbuðum hefðarstöðum. Í Kambódíu leitum við að best Amok fisknum eða Lok Lak nautaréttinum og í Laos munum við njóta Káníjá-grónanna, Nam Tok nautakjöts eða fersks Som Tam salats.
Frönsk rauðvín og calvados, foi gras og duck confit frá fransmönnum eða Saígon andasteik og buffalógrill norðanmanna, allt er þetta í boði.
Hvað sem það verður þá verður það allt upplifun og ævintýri.
Við skipulag ferðarinnar höfum við keppst við að finna gististaði sem eru ekki bara náttstaður heldur líka upplifun og ævintýri útaf fyrir sig. Vel staðsett hótel veita ferðalöngum tækifæri til að njóta ævintýra hvers staðar vel á eigin nótum.
Valin hótel
Saígon
Silverland
Hoi An
Delcacy
Siem Reap
Angkor Village
Luang Prabang
My Ban Lao
Dagskrá
Dagur 1, laugardagur, 16. nóvember 2024
Flogið frá Keflavík til Kaupmannahafnar 07:45-11:55. Áfram til Asíu 13:50.
Dagur 2, sunnudagur, 17. nóvember 2024
Lent kl. 09:15 í Saígon eftir millilendingu í Bangkok. Hádegisverður og síðdegisferð um borgina.
Dagur 3, mánudagur, 18. nóvember 2024
Farið um árósa Mekongfljótsins. Cu Chi göngin og furðuverk Cao Dai bera fyrir augu m.m.
Dagur 4, þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Flogið til Hue að morgni. Gamla höfuðborgin skoðuð; keisarahöllin o.fl. Ekið til Hoi An.
Dagur 5, miðvikudagur, 20. nóvember 2024
Að morgni er rústir My Son skoðaðar. Síðdegis er hin heillandi forni bær Hoi An skoðaður.
Dagur 6, fimmtudagur, 21. nóvember 2024
Frjáls dagur í Hoi An. Fjöldi valfrjálsra ferða í boði.
Dagur 7, föstudagur, 22. nóvember 2024
Flogið til Kambódíu. Síðdegisferð að Angkor. Sólsetur við Phnom Ba Kheng hofið.
Dagur 8, laugardagur, 23. nóvember 2024
Dagsferð um Angkor: Angkor Thom, Bayonhofið og Angkor Wat.
Dagur 9, sunnudagur, 24. nóvember 2024
Sigling um Tonle Sap vatnið að morgni. Banteay Srei hofið og sveitir Kambódíu síðdegis.
Dagur 10, mánudagur, 25. nóvember 2024
Frjáls dagur í Siem Reap. Fjöldi valfrjálsra ferða í boiði.
Dagur 11, þriðjudagur, 26. nóvember 2024
Rólegheit í Siem Reap fram að flugi til Pluang Prabang. Akstur á hótel. Kvöldvaka.
Dagur 12, miðvikudagur, 27. nóvember 2024
Gamli miðbær Luang Prabang er skoðaður.
Dagur 13, fimmtudagur, 28. nóvember 2024
Morgunferð um nágrenni Luang Prabang.
Dagur 14, föstudagur, 29. nóvember 2024
Frjáls dagur í Luang Prabang.
Dagur 15, laugardagur, 30. nóvember 2024
Flogið til Taílands. Farið inní borgina. Skoðunarferð og kvöldverður í Bangkok. Á flugvöll kl. 21:00
Dagur 16, sunnudagur, 1. desember 2024
Heimflug frá Bangkok 00:30. Lent í Köben 06:35. Flug til Íslands 13:05 og lent heima 15:25
Athugið
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.