Tour d´Angkor hefur gengið aftur og aftur, ár eftir ár síðan 2007 og þeir hjólakappar sem tekið hafa þátt skipta hundruðum. Núna er komið að Grand Tour d´Angkor. Efnismesta, víðfemasta og dýpsta hjólaferðin undir þessum titli sem þó fer eingöngum um Kambódíu. Við höfum unnið að því að lágmarka span og þvæling í rútum og flugvélum en höfum bætt við afskekktari svæðum, meiri nálægð við sveitirnar og mannlífið með viðkomu í lítt þekktum en spennandi bæjum og þorpum og með hjólaleiðum um fáfarnar sveitir Kambódíu.
Mögnuð hjólaferð þar sem sveitalíf Kambódíu, saga fornrar þjóðar, hinar mögnuðu rústir Angkor og göróttar borgir og bæir eru kannaðir.
Þaulreyndir áfangar í hnitmiðaðri og vandaðri ferð með framandi áskoranir og stór ævintýri.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, morgunmatur á tilgreindum hótelum, allur akstur á milli flugvalla og gististaða eins og tilgreint er í ferðalýsingunni, tilgreindar ferðir með aðgangseyri, reiðhjól og hjálmar, akstri og öðru tilheyrandi, hálft fæði; morgunverður og annað hvort hádegis- eða kvöldverður hvern dag, og leiðsögn innlendra sérfróðra leiðsögumanna í samvinnu við íslenska fararstjóra.
Ekki innifalið í verði:
Þjórfé, persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt hér að framan, eða kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum.
Ferðalýsing
Tvær vikur í Kambódíu, pakkaðar með átökum og ævintýrum sem eru við hæfi og getu allra fullfrískra auk þess sem ljúfsætar stundir bíða við sundlaugabakka, á framandi veitingastöðum, villtum næturmörkuðum og ljúfum og góðum gististöðum.
Ferðin hefst í Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu, þar sem fyrstu búðir eru slegnar upp í miðbænum á vel staðsettu hóteli þaðan sem hjólað verður á Vígvellina/Killing Fields, út á Silkieyju, að Silfurpagóðunni og fleiri merkum stöðum.
Leiðin frá höfuðborginni til Siem Reap er um framandi slóðir smábæja og þorpa þar sem komst verður í dásamlega nálægð við heimamenn og náttúruna og um leið gefst einstakt tækifæri til að kynnast hverfandi heimi á þeim tíma sem internetið og fleira er að fletja út fjölbreytileika og friðsæld afskekktra staða. Þarna verða ferðalangar komnir af slóðum annarra ferðamanna og fá einstakt tækifæri til að kynnast landi og þjóð í návígi.
Eftir viku í Kambódíu er loks komið til Siem Reap sem er umlukinn hinum stórbrotnu rústum þessi ríkis er við nefnum ídag Angkor. Rústir Angkor verða skoðaðar meðan dvalið er í Siem Reap í fjölda hjólaferða um hofin og á sama tíma verður haldið áfram að njóta afskekktra sveita, staldra við í þorpum á frumstæðum landbúnaðarsvæðum og rekja fáfarna slóða um bakgarða Angkor.
Síðasti kafli ferðarinnar er gamli nýlendubærinn Battambang sem er fallegur bær í grösugu landbúnaðarsvæði þar sem frakkar byggðu sér athvarf sem enn minnir sterkt á nýlendutímann þegar Kambódía, Laos og Víetnam mynduðu Franska Indókína.
Fylgdarbíll fer í humátt á eftir hjólreiðafólki og vanir innlendir leiðsögumenn og fararstjóri Úrval Útsýn leiða hópinn áfram af öryggi.
PHNOM PENH
Sagan sem skoðuð er í höfuðborginni er mun yngri en saga Angkor. Höll núverandi konungsfjölskyldu er heimsótt þar sem Silfurpagóðuna er að finna. Enn yngri er saga Rauðu Khmeranna sem hrökkluðust frá völdum fyrir rétt um 50 árum eftir stuttan en hræðilegan valdatíma. Phnom Penh er heillandi borg. Niður við Bassacfljótið(Mekong) í miðbænum eru flottir veitingastaðir og öldurhús þar sem heimamenn jafnt sem ferðafólk hópast saman á kvöldin og útum alla borg sjást merki um hina öru þróun sem á sér stað því Kambódía er að rétta úr kútnum með góðum hagvexti og uppbyggingu.
OUDONG, KAMPONG CHAM, KRATIE OG KHAMPONG THOM Eftir dagana í höfuðborginn verður haldið af stað í fjölþættasta hluta ferðarinnar þar sem slegið er upp búðum á þremur stöðum á fjórum dögum og farið í gegnum afskekkt sveitaþorp og grösugar sveitir þar til komið verður að Siemp Reap.
Oudong
er fyrsti áfangastaður en sá bær þjónaði sem höfuðstaður Kambódíu frá 1618 til 1863 þegar konungurinn flutti hirð sína til Phnom Penh samkvæmt ósk frakka sem þá höfðu tekið stjórn landsins að mestu yfir. Þó bærinn láti lítið yfir sér og sé ekki á kortum ferðamanna er sagan mikil. Henri Mouhot, fransmaðurinn sem „uppgötvaði“ Angkor og færði hinum vestræna heimi fréttir um staðinn kom við í Oudong nokkrum árum eftir að konungurinn hafi flutt þaðan og lýsir skrautlegu bæjarlífi þar sem sumir þeirra 12 þúsund íbúar sem enn byggðu staðinn lifðu í vellystingum við pomp og prakt með fíla og hesta til reiðar, tuggðu betelhnetur með þrælahópa sér til þjónustu á leið í hofin undir miklum hljómi tónlistarfólks í fylgd munka og presta.
Síðar var þetta mikill vígvöllur í átökum Rauðu khmeranna og hafa fundist þar hundruðir fjöldagrafa þar sem dysjaðir voru stríðsfangar og aðrir sem voru líflátnir þar.
Kampong Cham
er næst stærsti bær Kambódíu og státar af einstaklega frjósömum jarðvegi þar sem tóbak, sojabaunir, gúmmítré og fleira er ræktað. Þarna er að finna ýmsar fornar menjar um dýrðartíma Angkor, stúpur, styttur og hof. Við bæin er að finna lengstu brú yfir Mekong en þó þykir mörgum Ko Paen bambusbrúin merkilegri en hún var reist á einungis þremur mánuðum.
Kratie
liggur við árbakka Mekong. Bærinn hefur að geyma gamlar nýlendubyggingar frakka sem standa myndarlegar í kringum markaðstorg bæjarins. Irrawaddy höfrungurinn þrífst á nokkrum stöðum í Mekongfljótinu og að sjálfsögðu líka í Irrawaddyfljótinu í Myanmar. Talið er að um 70-80 höfrungar séu á þessum slóðum og er Kratie einn besti staðurinn til að nálgast þá.
Kampong Thom
er enn einn bærinn sem stendur við Mekong og einsog fyrri bæir á ferðakortinu á þessari sveitaferð á milli Phnom Penh og Siem Reap er þetta mikill landbúnaðarbær og er einnis skrýddur fjölmörgum fornum hofum og er þar helst að nefna Sambor Prei Kuk sem eru hof sem teljast frá svokölluðum For-Angkor tíma og byggðist áður en Angkor Wat og fleiri hof risu innan þess svæðis sem við nefnum Sögugarði Angkor norðan við Siem Reap.
ANGKOR OG SIEM REAP Hér bíða hinar glæsilegu rústir Angkor hjólreiðagarpa. Siem Reap bærinn býr ekki síður yfir ævintýrum en Angkor. Þarna finnast næturgaldrar inn á smart börum og diskótekum, framandi markaðir og fleira í þessari sérstöku súpu af sveitalífi og túrisma.
Enn í dag hefur hvergi í heiminum verið reist stærri trúarleg bygging en Angkor Wat. Hofið var byggt í upphafi 12. aldar – fyrir um 900 árum. Stórkostleg er saga veldis Khmera sem stóð yfir um 600 ár og náði yfir stóran hluta af meginlandi Suðaustur-Asíu. Hagsæld khmeranna byggðist mikið upp á vatni, þá með snjöllu áveitukerfi og uppistöðulónum sem gerðu mönnum kleift að rækta hrísgrjón allt árið um kring. Í þessu blómlega og öfluga ríki voru reist hof og hallir sem eiga sér enga hliðstæðu í víðri veröld. Steinlagðir vegir lágu til Taílands með ríkisgistiheimilum og sjúkrahúsum. Turnar hofanna voru gullhúðaðir eða steyptir í kopar og að hirðinni safnaðist óviðjafnanlegur auður í gulli og dýrgripum. Fjölmennt var í ríkinu og þegar hæst stóð bjuggu um ein milljón manna í Angkor-borginni, en á sama tíma voru 50.000 manns í Lundúnum. Kröftugur her varði ríkið og haslaði sér völl til stranda Víetnam, inn til fjalla Laos og vestur að landamærum Búrma um Taíland.
BATTAMBANG Ekki er hægt að segja að Battambang sé afskekktur eða fáfarinn staður en eftir að hafa verið í þeirri iðu og því stuði sem oft einkennir Siem Reap er dásamleg hvíld og friður sem einkennir Battambang og því verður ljúft að eiga siðustu tvo dagana í þessum sjarmerandi bæ.
Athugið
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.
Flug með Thai Airways og Icelandair. Skattar, gjöld og farangur innifalinn (23 kg innritað auk handfarangurs).