Hér er á ferðinni mögnuð samsetning á leti og sæld, fullkomin afslöppun og dekur á Phuket í Suður Taílandi, kostur á mögnuðu safaríævintýri í Khao Sok þjóðgarðinum þar sem enn finnst fjöldi villtra dýra og mögnuð náttúru og margvísleg létt og skemmtileg ævintýri bíða ferðalanga og í lokin eru 2 góðir dagar í Bangkok þar sem gjörólík upplifun tekur á móti fólki.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, leiðsögn og aðstoð innlenda aðila þegar á við, allar tilgreindar ferðir með aðgangseyrir, akstri og öðru tilheyrandi, og gisting í tvíbýli með morgunmat á tilgreindum hótelum/gististöðum.
Ekki innifalið í verði:
Athugið að ekki er boðið upp á fararstjórn, kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, eða þjórfé, persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt hér að framan.
Ferðalýsing
Í grunnin til er þessi ferð einföld strand- og borgarreisa sem getur þó verið stórt ævintýri því Bangkok er einhver villtasta og magnaðasta borg sem hægt er að kynnast og Phuket er draumaeyja þar sem allt það dekur og öll sú dásemd sem Taíland er þekkt fyrir kemur saman og hefur gert Phuket að eftirsóknarverðasta strandstað í Asíu.
En þeir sem kjósa að stytta strandvistina um tvo daga og fara í Khao Sok þjóðgarðinn eru að ganga á viti ótrúlegra ævintýra í villtum regnskógi þar sem fílar lifa enn villtir, gibbonapar syngja og stærsta blóm í heimi leynist. Fjölbreytt dagskrá leiðir fólk í hús byggð uppí tré umlukin frumskógi og útá tært og fallegt Chaew Laan vatnið þar sem gist verður á fleka eina nótt og yfir dagana eiga ferðalangar stefnumót við fíla, sigla niður kyrrlátt fljót á fleka, kynnast heimamönnum sem búa í fljótandi þorpum og geta borið augum risaleðurblökur og nashyrningsfugla ef ekki að sjá í fjarska villt tígrisdýr í öruggri fjarlægð.
Phuket
Guðirnir voru í góðu skapi þegar þeir sköpuðu Phuket og spöruðu ekkert af náttúrufegurð og dásamleika og toppuðu svo sköpunarverkið með ljúfu veðri, grósku og gnótt sjávarfangs. Fólk flykkist allstaðar af úr heiminum til að njóta sældar og fegurðar þessarar eyju sem núna er landtengd um brú yfir á meginlandið. Allt í kringum eyjuna eru fallegar sandstrendur í víðum grunnum víkum sem afmarkast að myndarlegum sjávarklettum prýddum pálmatrjám og innaf landi eru skógivaxnir dalir og fjöll þar sem leynast lítil þorp og bæir auk Phuketbæjar sem er myndarlegur gamall kaupstaður þar sem kínverjar, malayar og aðrar nágrannaþjóðir komu til að stunda viðskipti, selja heimamönnum nýlenduvarning og kaup fisk og ávexti heimamanna auk tins, hins verðmæta málms sem eyjan var svo rík af áður fyrr. Tin-námur Phuket var gull eyjunnar.
Í dag snýst allt um þjónustu við ferðamenn sem sækja þangað fyrir fjölbreytta og trygga þjónustu og viðgjörning sem spannar allan skalann, frá ódýrum gistiheimilum fyrir bakpokaferðalanga til einhverra glæsilegustu og dýrustu strandhótela í heimi.
Það er stutt að fara frá Phuketeyju í dásamlega köfun og snorkl þar sem hvalháfa og fleiri undrafiska er að finna en einnig má skjótast yfir í Phang Nga flóann þar sem hinar myndrænu og flott eyjur eru sem við tengjum við James Bond eða Leonardo de Caprio í myndinni The Beach. Fullkomnar en gamaldags póstkortið eru þessar eyjur með sægrænum sjó, hvítum sandströndum, tignarlegum kalksteinsklettum og allstaðar vagga kókospálmarnir sér í hægum andvara af hafi.
Frumskógar- og vatnaævintýri Khao Sok
Khao Sok er þjóðgarður í Suður-Taílandi þar sem náttúran fær svo sannarlega að njóta sín því lítil uppbygging mannvirkja hefur átt sér stað á svæðinu.
Eitt helsta aðdráttarafli Khao Sok er Cheow Laan stöðuvatnið í miðjum þjóðgarðinum. Ferð Úrval Útsýn um Khao Sok skiptist í grunninn til í tvennt. – Fyrri hlutinn er á landi eða öllu fremur í skógi því þá er gist í trjáhúsum hátt yfir jörðu. – Síðari hlutinn er ótrúleg ævintýri á vatni þar sem gist er í flekahúsum úr bambus og timbri.
Fyrri nóttina er gist er í trjáhúsunum og vaknað upp við margbreytileg og framandi hljóð skógarins og hugsanlega berast að vinaleg köll gibbonapa úr þykkum frumskóginum í kringum húsin. Margskonar ævintýri og afþreying bíður leiðangursmanna til Khao Sok, yfir daginn er t.d. siglt niður kyrrlátt fljót á bambusfleka, ekið um fjöllin, fallegir fossar skoðaðir og farið í búddamusteri þar sem hrekkjóttir og betlandi apar halda til. Hápunkturinn gæti þó verið stefnumót við fílahjörð þar sem fólki gefst kostur á að kynnast þessum tignarlegu skepnum, baða þær og hirða.
Síðari nóttin er út á vatninu. Siglt er undir hádegi frá landi og haldið á vit vatnaævintýra þar sem oft er byrjað að fara að flekaþorpinu sem er í kyrrlátri vík. Yfir daginn er margt í boði, t.d. ferð í leðurblökuhelli, næturgang að tarantúlubyggð, fljótandi þorp veiðimanna heimsótt og farið í göngur um frumskóginn. En mestum tíma er varið í leik. Sprang í hlíðinni, kanóaróðri, sundi og slöngusiglingum eða notalegum kvöldvökum.
Það er margt sérstakt við regnskóg Khao Sok, náttúrufegurð og fjölbreytileiki dýra- og plöntulífs er mikill og kemur það t.d. til af forsögu og aldri skógarins. Þessi skógur fraus aldrei á síðustu ísöld líkt og regnskógar í Suður-Ameríku og þess vegna er frumskógurinn meðal þeirra elstu sem finnast. Kalksteinsklettarnir í Khao Sok eru margir þeir hæstu eða allt að 1000m háir. Þeir mynduðust vegna hreyfinga á jarflekunum á sama tíma og Himalæja fjallgarðurinn tók að rísa. Þá reis mikið kóralrif úr sæ sem í dag myndar kalksteinsfjallabelti frá Kína, suður til Indónesíu og t.d. um Khao Sok og Krabi.
Stærsta og jafnframt verst lyktandi blóm heims finnst í Khao Sok, Rafflesia Keri Meyer, eða „Bua Phut” eins og nafnið útleggst á taílensku. Blómið lyktar sem rotnandi lík og verður allt að einn metri að þvermáli. Aðrar plöntur sem t.d. finnast í regnskóginum eru sjaldséð blævængs pálmatré, fjöldi villtra orkidea og risabambustré. Í Khao Sok er hægt er að sjá, ef maður er heppinn, villt tígrisdýr, fíla (um 100 villtir fílar búa á svæðinu), fljúgandi refi eða ávaxta leðurblökur sem hafa vænghaf allt að 1,85 cm að lengd, tignarleg dádýr, nashyrningsfuglar (hornbills) eða margskonar apa, t.d. gibbonapana sem eru einu spendýrin utan okkur sem stunda söng og á morgnana má stundum heyra karlapana syngja til kvenapanna.