Hér er boðið upp á landkönnun. Hver sem fer þessa ferð kallast víðförull. Farið verður vítt og breitt sunnan miðbaugs um víðfemi Suð-Austur Asíu, haf- og landsvæði sem rúma magnaða náttúru og ótrúlega menningu. Borgríkið Singapúr, soldánahallir á Jövu, glóandi eldfjöll Brómó, drekar á Kómódó og sæld og dulúð Balí.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, og flug með Emirates og Icelandair, gisting í tvíbýli með morgunmat í tilgreindum hótelum, allur akstur á milli flugvalla og gististaða eins og tilgreint er í ferðalýsingu, tilgreindar skoðunarferðir auk aðgangseyris, hálft fæði eða 12 hádegisverðir og 4 kvöldverðir, íslensk fararstjórn og þjónusta erlendra leiðsögumanna.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, þjóðgarðsgjald á Kómódó sem er um 7-8.000 kr. á mann, þjórfé persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt sérstaklega í ferðalýsingu.
Ferðalýsing
SINGAPÚR
Sumir kalla Singapúr draumaland kapítalismans. Skrifstofuturnar – fullkomlega hannaðir eftir reglum feng shui – teygja sig upp til himins, verslunarmiðstöðvar eru við hvert fótmál og menningarstofnanir prýða strandlengju þessa örsmáa borgríkis í túnfæti Malasíu og Indónesíu.
Kannski er Singapúr gluggi inn í framtíð Asíu. Þótt ekki sé allt fullkomið á bak við glerturnana og marmarann líta margir til Singapúr sem fordæmis fyrir álfuna alla til að læra af og apa eftir. Í dag eru þarlendar tekjur á hvert mannsbarn með því hæsta sem gerist í heiminum og áður en þessi öld er hálfnuð er því spáð að ríkjustu þjóðir Skandinavíu verði varla hálfdrættingar á við Singapúr í tekjum og lífsgæðum.
En hvernig á að lýsa Singapúr? New York Austursins? Blanda af því besta úr austri og vestri þar sem menningarstraumar frá Kína, Indlandi, Malasíu og Eyjaálfu renna saman í einn fullkominn graut? Matgæðingar segjast t.d. hvergi fá betri kínverskan eða indverskan mat en í Singapúr. Metnaðurinn, eljusemin og samkeppnin hefur smitað frá sér úr viðskiptalífinu og inn í eldhúsin þar sem búið er að fínstilla öll kryddin og sósurnar fyrir þá fjölþjóðlegu bragðlauka sem búa í borginni.
Annars eiga þeir sem ferðast um Asíu varla að geta komist hjá því að heimsækja Singapúr. Flugvöllur borgarinnar er nefnilega ein stærsta samgöngumiðstöð álfunnar og ógrynni flugfélaga notar Changi-flugvöllinn til að tengja saman austrið og vestrið. Ferðalangar þurfa ansi góða afsökun til að staldra ekki við – ef ekki væri nema í nokkra daga – til að upplifa lystisemdir borgarinnar.
Ferðamenn þurfa bara að gæta þess að ekki leynist tyggjópakki í töskunni þegar komið er til landsins. Til að halda borginni fallegri og hreinni var tyggjó bannað með lögum árið 1992 og ekki nóg með það heldur geta þeir sem henda rusli á götuna átt von á þúsund dollara sekt.
Indónesía er fjórða fjölmennasta ríki heims. Þetta víðfeðma og margbrotna land er engu líkt, samansafn smárra og stórra eyja sem teygja sig frá Ástralíu upp til syðsta enda Malasíu. Einn risavaxinn hrærigrautur af fólki, menningu og náttúru, þar sem rösklega 300 ólíkir þjóðflokkar hafa eigin dansa, matseld og listform.
Java
Java býr yfir glæsilegri sögu. Í bæjunum Sóló og Jógjakarta eru hallir múslímskra soldána skoðaða og antíkmarkaðir þræddir. Prambana hofin frá tíma Hindúa og Bóróbúdúr sem er stærsta hof sem reist hefur verið Búddha til dýrðar og stendur nú í miðju stærsta ríki múslíma í heimi. Farþegar njóta sólarupprásar við eldgíg Brómó sem er eitthvert myndrænasta og fallegasta eldfjall í heimi.
Tæplega 60% íbúa Indónesíu búa á Jövu og er hún talin þéttbýlasta eyja í heiminum.
Alls eru 300 þjóðarbrot viðurkennd í Indónesíu og hvorki fleiri né færri en 742 tungumál hafa verið skráð þar.
Javamaðurinn er þekktur forsögulegur maður sem fannst á Jövu í lok nítjándu aldar og hefur þótt sanna að „homo erectus“ hefur verið á eyjunni fyrir 1.5 milljón ára, eða í síðasta lagi fyrir 35.000 árum.
Arfleifð Hollendinga sem lengi ríktu yfir þessari fyrrum nýlendu sinni er víða sjáanleg en markar þó ekki dýpri spor í sögu eyjunnar en hin fjölmörgu konungsdæmi heimamanna sem ríktu yfir þessari frjósömu og þéttbýlu eyju sem hefur fóstrað sterk menningarsamfélög hindúa, búddista og múslíma í gegnum tíðina.
Á Jövu, sem kalla má höfuðeyja Indónesíu, verður dvalið í vikutíma í bæjunum Jogjakarta, Sóló og Súrabæjaborg og farið um Bóróbódúr, Prambanan, Brómófjall og fleiri merka staði.
Kraumandi eldfjöll, ævaforn hof, bæjir með höllum soldána, frumstæð þorp og iðagræn og heillandi náttúra er meðal þess sem ber fyrir augu á Jövu.
Kómódó og Flóres
Frá Súrabæja er flogið suður yfir eyjurnar Balí, Lombok, Súmbava og að lokum lent á Flóreseyju þar sem dvalið verður í tvær nætur, eina nótt um borð í phinis-bát þegar farið verður að Kómódóeyju og aðra nótt á Flóreseyju sjálfri. Á Kómódó og Rinjaeyju finnast enn risaeðlur, en kómódó-drekarnir eru stærstu eðlur í heimi. Fyrir utan dýralífið ríkir ólík menning á Floreseyjum en ferðalangar hafa kynnst á Jövu eða munu kynnast síðar á Balí.
Neðansjávar við Kómódó eru einhver ævintýralegustu köfunarsvæði í heimi.
Kómódódrekarnir eru magnaðar skepnur sem verða allt að 3ja metra langar og eru engin gæludýr. Það var ekki fyrr en 1910 sem hinum vestræna heimi varð kunnugt um þessar kynjaskepnur og enn koma vísindamenn sér ekki saman um uppruna, ástæður fyrir þessum risavexti eða hvort bit þeirra séu eitruð. Drekarnir veiða sér til matar hin ýmsu dýr og allmörg dæmi er um að drekarnir valdi fólki skaða.
Annað lífríki, menning og mannlíf Kómódó og Rinca eyjanna er forvitnilegt fyrir margar sakir og munu leiðangursmennn kynnast hinum ýmsu hliðum þessa afskekkta horns heimsins.
Flogið verður frá Jövu til Kómódó þar sem dvalið verður 3 daga og eyjun skoðuð og reynt að komast í návígi við Kómódódrekana.
Balí
Það kemur mörgum á óvart hversu ósnortin og afskekkt Balí er í raun. Hvergi viðhaldast hefðir og rótgróið trúarlíf á eins látlausan hátt og þar. Þrátt fyrir að Balíbúar hafi tekið stór og djörf skref inn í “nútímann” á fáum áratugum virðast þeir ekki hafa þurft að fórna hinum sterku og einstöku hefðum sínum.
Á Balí má kynnast dularfullri og heillandi menningu eyjarskeggja, sjá dans barongskrímslanna, hlusta á bambus-sílófóna, láta dáleiðast af þokkafullum fingrum og stjörfum augum legong-dansaranna, falla í djúpan trans með kecakdanshópi eða færa hindúaguðinum Visnú fórnir.
Náttúrufegurð Balí er stórkostleg; þar skiptast á tignarleg fjöll og grösugir dalir, beljandi ár og sindrandi lækir, eldstöðvar og tær fjallavötn, hvítar strendur og háir sjávarhamrar.
Leiðangurinn endar á rólegum nótum á hinni ljúf og kyngimögnuðu eyju Balí. Dvalið verður fyrst dvalið í fjallabænum Úbúd þaðan sem stutt er að sækja merkustu staði eyjunnar auk þess að slaka vel á og hvílast á þeim stað sem gjarnan er nefndur paradís og síðustu dögum verður svo varið á suðurodda Balí, í strandbænum Sanúr. Á leiðinni frá Úbúd til Sanúr verður farið um vesturenda eyjunnar og komið við í Karegasem og Klungung konungsdæmunum þar sem gamla Kerta Gosa dómhúsið verður skoðað, farið í þorp frumbyggja Balí sem nefnist agafólkið auk þess að koma við í Goa Lawah hellunum þar sem hof hindúa er deilt með þúsundum leðurblakna.
Hægt er að beina fyrirspurnum beint til Viktors á netfangið viktor@uu.is eða hringja í síma 8975868.
HÓTEL
SINGAPÚR
The Paradox Merchant Court at Clarke Quay
JOGJAKARTA
Santika Premiere Yogjakarta
SÓLÓ
Royal Surakarta
BRÓMÓ
Jiwa Jawa Mountain Resort Bromo
SÚRABÆJA
Santika Premiere Surabaya
FLÓRES/KÓMÓDÓ
Bátur og Flores Bintang Hotel
ÚBÚD
The Ubud Village
SANÚR
Puri Santrian
Dagskrá
Dagur 1, fimmtudagur, 3. október 2024
Flogið kl 07:50 til Oslo með Icelandair. Lent 12:35. Áfram til Asíu með Emirates um Dúbaí kl 14:35.
Dagur 2, föstudagur, 4. október 2024
Lent í Singapúr kl 15:00 eftir millilendingu í Dúbaí. Ekið á hótel. Kvöldverður og kynning á borginni.
Dagur 3, laugardagur, 5. október 2024
Eftir morgunverð er haldið áfram að skoða Singapúr. Síðdegið og kvöld frjálst.
Dagur 4, sunnudagur, 6. október 2024
Flogið að morgni til Indónesíu. Lent í Jogjakarta fyrir hádegi. Síðdegis er farið um borgina.
Dagur 5, mánudagur, 7. október 2024
Eftir morgunverð er haldið að Boróbúdur hofunum og komið við í Mendt og Candirejo þorpunum.
Dagur 6, þriðjudagur, 8. október 2024
Prambanan hofin skoðuð og farið um sveitir Jövu.
Dagur 7, miðvikudagur, 9. október 2024
Ekið til Sólóborgar. Gömlu soldánahallarinnar skoðaðar auk Taman Sari og víðar.
Dagur 8, fimmtudagur, 10. október 2024
Eftir morgunverð er farið að Sukuh og Cetho hofunum. Síðdegið frjálst.
Dagur 9, föstudagur, 11. október 2024
Lestarferð frá Sóló til Jombang þaðan sem ekið er að Brómófjalli.
Dagur 10, laugardagur, 12. október 2024
Eftir morgunferð á Brómó er ekið niður til Surabaya. Borgin skoðuð. Síðdegið frálst.
Dagur 11, sunnudagur, 13. október 2024
Flogið að morgni til Fóres. Sigling um eyjarnar hefst. Haldið að Padareyju. Nótt við akkeri.
Dagur 12, mánudagur, 14. október 2024
Farið í land á Kómdó. Siglt um. Áð við Bleikuströnd og Taka Makasara áður en haldið er aftur til Flóres.
Dagur 13, þriðjudagur, 15. október 2024
Flogið til Balí eftir morgunverð. Ekið til Úbúd. Gamli bærinn skoðaðu um kvöldið.
Dagur 14, miðvikudagur, 16. október 2024
Eftir morgungöngu um Úbúd er rólegur dagur til að hvílast.
Dagur 15, fimmtudagur, 17. október 2024
Dagsferð um nágrenni Úbúd þar sem menning og náttúra eyjunnar er kynnt og skoðuð.
Dagur 16, föstudagur, 18. október 2024
Hvíldardagur.
Dagur 17, laugardagur, 19. október 2024
Ekið austur til Klungkung. Kerta Gosa dómhúsið, Besakih hofið o.fl.. Komið til Sanúr að kveldi.
Dagur 18, sunnudagur, 20. október 2024
Rólegir dagar á ströndinni. Fjöldi valfrjálsra ferða í boði.
Dagur 19, mánudagur, 21. október 2024
Síðasti dagurinn í Indónesíu. Farið á flugvöll tímanlega fyrir miðnæturflug heim.
Dagur 20, þriðjudagur, 22. október 2024
Flogið áleiðis heim á miðnætti. Millilent í Arabíu og Osló. Lent í Keflavík kl 14:45. Ferðalok.
Athugið
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.