Ef paradís er til finnst hún á Balí og fá ævintýri eru stærri en fjallganga á Rinjani. Hér eru komin saman mörg spennandi element. Balí býr yfir ákveðnum galdri og og sérstöðu og þó einungis skilji 20 km á milli eyjanna er galdurinn á Lombok allt annar bæði hvað íbúa, menningu og náttúru varðar. Þeir sem takast á við þessa stórbrotnu ferð munu því kynnast tveimur ólíkum endum Indónesíu auk þess að komast í einstaka nálægð við náttúru eyjanna með göngum og fjölbreyttri útivist.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, akstur til og frá flugvelli, leiðsögn innlenda sérhæfðra aðila, fæði samkvæmt ferðalýsingu; kvöldverður við komu, hádegisverður í ferðum um Balí og fullt fæði í göngum á Lombok og morgunverður á öllum hótelum, tjöld, svefnpokar, dýnur(6cm), koddar, stólar, eldhús- og matartjald, ferðasalerni og ljósbúnaður, og fylgdar- og burðarfólk í fjallgöngu á Rinjani.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, eða þjórfé persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt hér að framan.
Ferðalýsing
Ertu ferðalangur sem vill pakka saman ljúfu fríi og ögrandi áskorunum í einni og sömu ferðinni? Ef svo er skaltu lesa áfram því hér kynnum við ótrúlega fjölbreytta og skemmtilega blöndu. Fyrsti kafli ferðarinnar eru 4 dagar í fjallabænum Úbúd þar sem léttar göngur, hjólaferðir, stefnumót við galdrakalla og jógameistara bíða ferðalanga auk þess að ganga inní þann ævintýraheim sem þetta litla þorp er og bragða á einkennisréttum heimamanna og hugsanlega skola þeim niður með Arak eða engiferseyð.
Svo er það Lombok. Hin dulúðlega eyja sem er byggð hinum göldrótta Sasakfólki og býr yfir annarri náttúru og menningu en Balí því Lomboksundið sker á milli frá því fyrir milljónum ára og þó það sé gott skyggni á milli eyjanna er hafið djúpt og algjör skil á náttúru og menningu. Göngur á Rinjanifjallið eru sannarlega hápunktur ferðarinnar því fjallið rís 3,726 metra yfir sjó og gnæfir yfir öllu og drjúgum 700 metrum yfir hæsta fjall Balí, Agúngfjallið. Ævintýralegt landslag og mátulega krefjandi ganga bíða ferðalanga í þriggja daga göngu á fjallið.
Ævintýrinu lýkur aftur á Balí þar sem síðustu dagarnir eru í leti á Seminyakströndinni.
Allar okkar ferðir hefjast í Keflavík og það er við hæfi að fara frá einu virkasta eldfjallasvæði heims og að öðrum sem gefur Reykjanesfjallgarðinum lítið eftir. Flogið er að morgni með Icelandair og áfram frá Evrópu um Arabíu með Emirates flugfélaginu. Það er engin stutt leið til Balí sem liggur 581 km sunnan við miðbauginn og átta tímabeltum frá Íslandi.
Þegar lent er síðdegis þann 24. október er ekið rakleiðis til fjalllendis Giyanar konungdæmisins þar sem dvalið verður fyrstu dagana í bænum Úbúd þaðan sem gengið er og hjólað um nágrennið á næstu dögum auk þess að hvílast og njóta einstaks umhverfis.
Eftir fjóra góða daga og nætur á Balí er haldið niður á suðurströndina þaðan sem siglt er til Lombok og byrjað á að dvelja nótt í Senarúþorpinu áður en haldið er á fjallið Rinjani. Rinjanigangan er mögnuð lífsreynsla fyrir þá sem hafa þor og dug til að klífa fjöll og inná framandi slóðir. Umhverfið er mikilfenglegt. Neðst er regnskógarbelti, svo tekur við margbreytilegt hrjóstrugt landslag og útsýni sem gæti virst vera á annari plánetu, hverasvæði, dimmgræn stöðuvötn og ævintýraleg næturganga síðasta spölin svo hægt er að njóta sólarupprásar með útsýni yfir Segara Anak-vatnið og um alla Lombokeyju og yfir á Balí og suður til Sumbawaeyju.
Á fjórða degi göngunnar er snúið aftur til Senarú og daginn eftir siglt aftur til Balí og nú farið beina leið á ströndina til að slaka á, hvílasta eftir gönguna og njóta Balí enn betur og dýpra.
Þriðjudagurinn 5. nóvember er síðasti heili dagurinn í Indónesíu en flogið er af stað heim til Íslands rétt eftir miðnætti miðvikudaginn 6. Nóvember og lent síðdegis heima eftir flug um Dúbaí og Osló.
Balí – fjallabærinn Úbúd og strendur Seminyak
Þorpið Úbúd hefur verið þekktur sem miðja handverks og lista í gegnum tíðina og sl. áratugi hefur sú menning eflst með komu erlendra listamanna. Hvergi á Balí er eins auðvelt að nálgast og kynnast arfleifð og menningu eyjarskeggja en í Úbúd. Úbúd er líka miðstöð útivistar þaðan sem auðvelt er að nálgast góð tækifæri til flúðasiglinga, hjólreiða og fjallgangna.
Strandbærinn Seminyak er heitasti strandstaður eyjunnar og það verða spennandi viðbrigði að komast af fjöllum Lombok og í sæld og dekur Seminyak, að teygja vel úr þreyttum fótunum á hlýrri sandströndinni, skola af sér ferðarykið í hlýjum sjónum eða láta nudda úr sér harðsperrur. Á Seminyak finnast flottustu veitingastaðirnir og stutt er í stuðið á Kuta, sem er næsti strandbær og tengist Seminyak svo þétt að maður sér ekki hvar skilin eru en finnur fljótt að þar er annað andrúmsloft sem litast meira af fjöri og töffaraskap. Það er á Kuta sem ástralir flykkjast í sínar „tenerifeferðir“ því rétt er um 3 klst flug frá Balí á nyrstu enda Ástralíu. Á Kuta finnast fleiri pöbbar og tattústofur en á Seminyak þar sem elegant setustofur og bútík verslanir eru meira áberandi.
Lombok
Á eyjunni Lombok finnast hvítar strendur, frábærar brimbrettaöldur, grænir skógar og gönguleiðir um hrísgrjóna- og tóbaksakra.
Lombok er 5435 km² eldfjallaeyja með 3,3 miljónum íbúa. Frumbyggjarnir, Sasakar, eru fjölmennastir og telja um 85% íbúa eyjunnar. Flestir eru taldir múslimar þó trúarhefðir þeirra þykja litaðar af fornum siðum og einhverju sem einhvern tíman var nefnt villutrú. Það finnst víða magnaður galdur á Balí, bæði hvítur og svartur en á Lombok er galdurinn jafnvel enn rammari.
Á norðurhluta Lombok eru tignarleg fjöll umvafin gróskumiklum regnskógi. Hæst stendur Rinjanifjall 3.726 metra yfir sjávarmáli. Í miklu sprengigosi á þrettándu öld myndaðist 8,5 km² askja þegar kvikuþróin tæmdist og fjallið hrundi saman. Í öskjunni er stórt gígvatn sem ber heitið Segara Anak, eða Barn hafsins. Í austur hluta vatnsins er lítil eyja sem nefnist Gunung Baru og enn kraumar í henni.
Gangan á eldfjallið Rinjani
Gangan á topp Rinjani tekur tæpa fjóra daga. Gangan er nokkuð krefjandi en mest reynir á þegar komið er að toppnum en það er óhætt að segja að engin verður svikin sem kemst upp á topp Rinjani.
Vanir leiðsögumenn leiða hópinn, sjá um eldamennsku og að slá upp tjaldbúðum auk þess að bera útbúnað.
Á fyrsta degi hefst gangan í 1150 metra hæð þaðan sem gengið er upp í 1800 m hæð á rúmlega 7 klukkustundum.
Á öðrum degi er gengið í rúma 4 tíma upp í 2639m hæð og gefst góður tími til hvíldar fyrir krefjandi göngu morgundagsins. Á þriðja degi er lagt af stað rétt eftir miðnætti og gengið á toppinn á u.þ.b 3 – 4 klukkustundum. Þegar komið er á toppinn, vonandi í tæka tíð fyrir sólarupprás, birtist stórkostlegt útsýni yfir Segara Anak vatnið, Agungfjallið á Balí, Sumbawa-eyjuna, og Gilieyjurnar. Eftir að fólk hefur hvílst og notið sólarupprásar er klifrað niður að vatninu. Þar verður tekinn sundsprettur í volgum hver og snæddur hádegismatur, á meðan slá leiðsögumenn upp tjaldbúðum og lagst verður til hvílu snemma eftir erfiðan dag. Morguninn eftir tekur við 3ja tíma ganga að hinni hlið gígsins og er sú ganga brött á köflum. Hádegisverður snæddur með fallegt útsýnið yfir gígvatnið áður en gengið um fimm tíma niður fjallið með stoppum í regnskóginum sem tekur við þegar neðar kemur.
Náttúra Indónesíu er einstök og í þessari óvenjulegu ævintýraferð er náttúran megin vettvangurinn. Einungis Brasílía býr yfir fjölbreyttari náttúru en finnst í Indónesíu og einungis Ástralía toppar Indónesíu hvað varðar fjölda dýrategunda sem eru í útrýmingarhættu. Neðansjávar finnst náttúra sem varla á sér neitt líkt í heiminum, t.d. finnast 1.650 mismunandi tegundir af kóralfiskum í Austur Indónesíu einni.
Indónesía er í Suðaustur-Asíu og er fjórða fjölmennasta ríki heims. Þetta víðfeðma og margbrotna land er engu líkt, samansafn smárra og stórra eyja sem teygja sig frá Ástralíu upp til syðstu táar Taílands. Einn risavaxinn hrærigrautur af fólki, menningu og náttúru, þar sem rösklega 300 ólíkir þjóðflokkar hafa hver sinn eigin sið.
Þeir sem óska eftir nánari upplýsingum um ferðina geta sent skeyti á serferdir@uu.is
Gistingar í boði
Athugið
Staðfestingargjald er 80.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.