Allar ferðir

Madeira er gjarnan kölluð Eyja hins eilífa vors eða Hinn fljótandi skrautgarður sem segir margt um milt veðurfarið og gróðursældina á þessari eldfjallaeyju. Í boði er gisting á úrvals hótelum og geta gestir slakað á og notið sólar og sjávar steinsnar frá skemmtilegri borg og/eða tekið þátt í fjölbreyttum kynnisferðum.

Lega eyjunnar í Atlantshafinu tryggir að veðurfarið er þægilegt, milt og stöðugt árið um kring. Landslagið er ægifagurt, tignarleg fjöll, klettar, djúpir dalir  og fjölskrúðugur gróður milli fjalls og fjöru. Sykurreyr, vín- og bananaekrur setja svip sinn á landið auk fjölda skrúðgarða. Gamalt áveitukerfi er enn gulls ígildi og mikil völundarsmíð. Um alla eyju eru afar skemmtilegar gönguleiðir.

Athugið að akstur til og frá flugvelli er ekki í boði á vegum Úrval Útsýn.

Madeira

Madeira tilheyrir Portúgal en er með sjálfstjórn og eigið þing.  Eyjan er um 740 ferkílómetrar að stærð og íbúar um 300 þúsund. Fólkið er einstaklega vingjarnlegt og auk portúgölsku tala mjög margir ensku. Ekki er mikið um stórar sandstrendur á eyjunni, víðast hvar eru klettastrendur og fallegar víkur. Þó má finna manngerðar sandstrendur með gullnum sandi.

Höfuðborgin Funchal

Við suðurströndina er höfuðborgin Funchal, heillandi bær í nýlendustíl með ríka menningarsögu. Gamli bærinn er einstaklega fallegur. Þar eru ódýr og góð portúgölsk veitingahús, fjölbreyttir markaðir, glæsilegar handverksbúðir og fjöldi kaffihúsa. Höfnin er sjarmerandi og gaman að rölta meðfram sjónum og fylgjast m.a. með hinum mörgu skemmtiferðarskipum sem þangað koma. Fallegir garðar prýða bæinn eins og alla eyjuna. 

Madeira

Lido ferðamannasvæðið

Fyrir vestan Funchal hefur byggst upp heilmikið ferðamannasvæði, Lido, þar sem eru fjölmörg hótel, veitingastaðir, verslanir og önnur þjónusta fyrir ferðamenn.  Meðfram sjónum er göngustígur og á stöku stað hafa verið búnar til litlar sandstrendur eða önnur baðaðstaða fyrir unnendur sjávar. Einnig er alls konar sjávarsport í boði. Til að komast inn í Funchal, má ganga eftir  fallegum stíg eða taka strætó frá hóteli.
Við bjóðum upp á úrval gististaða, 3,  4 og 5 stjörnur, bæði í Lido hverfinu og inni í borg. 

Madeira

Gaman að skoða

Fjölbreyttar kynnisferðir verða í boði, s.s. um höfuðborgina Funchal, í sjávarþorp, bændabýli, upp á Pico do Arieiro sem er hæsti tindur eyjarinnar (1818 m), um gömul eldfjöll og djúpa dali, gönguferðir og náttúruskoðun, þjóðleg kvöldskemmtun og fleira. Möguleikarnir eru óþrjótandi á þessari fallegu eyju með áhugaverða sögu og einstaka náttúru.  

Gistingar í boði á Madeira

Sæki gistingar...