Allar ferðir

Krít er stærst grísku eyjanna og þeirra syðst. Sólin skín flesta daga ársins en hægur andvari af hafi gerir loftslagið eitt hið besta í Evrópu. Landslagið er fjölbreytt, há fjöll með snævi þöktum toppum, frábærar strendur og eyðivíkur, iðandi borgarlíf og hæglátt þorpslíf, fjörugir barir og rólegar sveitakrár.

Andrúmsloftið og menningin á Krít eru einstök. Nægir að nefna söguslóðir Knossos, siglingu til Santorini, gönguferð um Samaria gljúfrið og dansspor í takt við Zorba; þetta þú upplifir bara á Krít. Hún er stærst grísku eyjanna og þeirra syðst. Sólin skín flesta daga ársins en hægur andvari af hafi gerir loftslagið eitt hið besta í Evrópu. Landslagið er fjölbreytt, há fjöll með snævi þöktum toppum, frábærar strendur og eyðivíkur, iðandi borgarlíf og hæglátt þorpslíf, fjörugir barir og rólegar sveitakrár.

Það yndislega við Krít er að daglegt líf eyjaskeggja er nær ósnortið af ferðamönnum. Krítverjar eru stoltir af sínu og taka ferðamönnum opnum örmum um leið og þeir bjóða þeim að njóta þess besta sem eyjan hefur upp á að bjóða. Á Krít er matur í hæsta gæðaflokki, ferskur fiskur og kjöt, grænmeti með hágæða ólifuolíu, gott vín og ostar sem bráðna í munni.

Chania er fyrrum höfuðstaður Krítar og  önnur stærsta borg eyjunnar. Gamli bæjarhlutinn innan borgarmúranna ber svip af Feneyjum og Tyrklandi með þröngum götum og byggingum frá fyrri öldum. Hjarta borgarinnar er gamla höfnin, umkringd líflegum og skemmtilegum börum þar sem er líf og fjör allan sólarhringinn, sérstaklega á sumrin. Andrúmsloftið er heillandi og staðurinn laðar til sín bæði íbúa og erlenda ferðamenn. Upp frá höfninni hlykkjast götur með fjölda verslana þar sem seldir eru minjagripir, matur og vín, skartgripir og handunnir listmunir. Út með ströndinni er að finna óviðjafnanlega sjávarréttastaði sem heimamenn flykkast á þegar þeir vilja gera sér glaðan dag. Við strandlengjuna milli Chania og bæjarins Platanias er byggðin samfelld og þéttist í litla bæjarkjarna meðfram ströndinni. Þar eru gullnar strendur, kristaltær sjór, nýtísku hótel og fjölskyldureknar íbúðagistingar. Hér er að finna fjölda veitingastaða, bara og verslana þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi.

Chania

iStock 845712720
iStock 472333216

Rethymnon

Miðja vegu milli Chania og höfuðstaðarins Heraklion er bærinn Rethymnon þar sem blandast saman heillandi smábæjarstemmning og fáguð heimsmenning.  Frá Rethymnon er stutt í fallega litla strandbæi og fræga sögustaði og hér er fallegasta höfnin á Krít,. Litla fiskimannahöfnin er eins og leikmynd frá miðöldum, bæði í lögun og útliti, og ævagamlar húsaraðir speglast í höfninni þar sem fiskibátar liggja hlið við hlið. Í Rethymnon byrjar sandströndin inni í bænum og teygir sig marga kílómetra í austurátt. Meðfram ströndinni er löng, falleg göngugata með blaktandi pálmatrjám og fjöldamörgum útiveitingastöðum.

Skoðunarferðir

Samariagljúfrið

Gönguferð um Samariagljúfrið er ómissandi upplifun sem göngugarpar mega ekki láta fram hjá sér fara. Samaria er lengsta gljúfur í Evrópu, tæpir 17 km að lengd. Gangan hefst á Omalos hásléttunni sem er í 1200 metra hæð yfir sjávarmáli. Hægt er að ganga lengri eða skemmri leið í gljúfrinu en lengri gangan er 17 km og sú styttri 4 km. Gangan hefst á 600 tréþrepum niður í mót og hápunktur ferðarinnar er þegar komiði er að „járnhliðinu“ en þar er gljúfrið þrengst og aðeins örfáir metrar milli brattra gljúfurveggjanna. Gangan endar í litla þorpinu Agia Roumeli, en þar gefst tími fyrir hádegisverð og sjóbað í Líbýska hafinu áður en haldið er heim.

Santorini

Ævintýrasigling til eyjarinnar Santorini sem hefur löngum verið talin ein myndrænasta eyja Grikklands. Eyjan er leifar af fornu eldfjalli sem sprakk í loft upp fyrir um 3500 árum og olli miklu tjóni um allt Eyjahaf. Nú er Santorini hreinasta perla í djúpbláu hafi og ógleymanleg sjón fyrir alla fagurkera. Svartur sandur, hvít hús, steingert hraun, háir klettar. Dulúð, sögur og munnmæli hafa alltaf einkennt Santorini og eyjan hefur frá upphafi vega laðað til sín gesti. Fjöldi verslana selur alls kyns fallega listmuni og minjagripi. Þetta er dagsferð og siglt er frá bænum Rethymnon.

Elafonissi ströndin

Ein fallegasta strönd Krítar er Elafonissi. Eyjan Elafonissi liggur skammt undan landi og aðeins yfir grunnt sund að fara. Auðvelt er að komast út í eyjuna með því að vaða kristaltæran sjóinnn sem er upplifun út af fyrir sig.

Knossos og Heraklion

Dagsferð til Konssos þar sem við kynnumst Mínósarmenningunni sem er talin vera fyrsta hámenning Evrópu. Farið verður 4000 ár aftur í tímann og gengið um rústir hinna margrómuðu hallar, fræðst um sögu, menningu og lifnaðarhætti Mínósanna. Fornleifafræðingurinn Arthur Evans festi kaup  á svæðinu árið 1900 og hóf uppgröft og uppbyggingu á Knossos. Stærsta höllin var byggð á tveimur hæðum og var hún með u.þ.b. 1500 herbergjum. Þar fundust miklir fjársjóðir, m.a. stórkostlegar freskur og mikið af fallegu keramiki.

Eftir að við höfum skoðað Knossos er svo ekið til höfuðborgar Krítar, Heraklion, þar sem gestir hafa frjálsan tíma til þess að ganga um borgina, kíkja í verslanir eða kynnast aðeins betur sögu Krítar með því að skoða einstaka muni á fornleifasafninu.

Gistingar í boði á Krít

Sæki gistingar...