Benidorm er öllum sóldýrkendum vel kunn, enda einn vinsælasti áfangastaður sóldýrkandi Evrópubúa. Benidorm sameinar fjörugt strandlíf og víðfrægt næturlíf og þangað flykkist fólk til að njóta tilverunnar, hvílast og skemmta sér. Á aðra hönd má finna Miðjarðarhafið með sínar sólhvítu sandstrendur, á hina rís fjallahringur sem lumar á yndislegum litlum þorpum og óviðjafnanlegum ævintýrum.
Benidorm er við Costa Blanca strandlengjuna – flogið er til Alicante flugvallar.
Draumkenndar strendur Benidorm hafa um árabil lokkað til sín sólþyrsta Íslendinga. Svæðið iðar af lífi með sínum hvítu ströndum, glæsilegu háhýsum og fjölbreyttu matarmenningu. Á Benidorm verður fjölskyldan svo sannarlega ekki svikin um draumafríið enda er um að ræða einn þaulreyndasta áfangastað Evrópubúa. Líflegar strendur, dýragarðar, skemmtigarðar, barir ásamt gífurlegum fjölda veitingastaða og kráa. Allt þetta er að finna á Benidorm.
COSTA BLANCA SVÆÐIÐ
· Albír
· Alicante
· Altea
· Benidorm
· Calpe
· Flogið til Alicante (ALC)
· Flugtími +/-4 klst.
· Akstur til Benidorm 30 mín.
· Tungumál: Spænska
· Gjaldmiðill: Evra
· Sumarhiti: 28+°C
· Vetrarhiti: 16+°C
· Milt og gott vor og haust
· Tími: +2 sumar +1 vetur
· Landkóði: +34
HVÍTA STRÖNDIN
Hvítar strendur með fagurbláu hafinu á sólríkum sumardögum eiga engan sinn líka. Fjallgarðurinn fyrir ofan ströndina gerir það að verkum að sjaldan rignir. Því er á fáum stöðum á Spáni jafn sólríkt. Auðvelt er að ferðast í kringum Benidorm en þar er að finna fallegar sveitir og héruð umvafin einstakri náttúrufegurð. Á Benidorm er hægt að sameina óendanlega fjörugt strandlíf og óviðjafnanlegt næturlíf – þangað flykkist fólk til að njóta tilverunnar, hvílast og skemmta sér.
FJÖLSKYLDU- OG SKEMMTIGARÐAR
Í borginni Benidorm má finna hinn töfrandi skemmtigarð Terra Mitica sem er fjörugur fjölskyldu- og skemmtigarður. Í garðinum er að finna fjöldan allan af leiktækjum og glæsilegum veitingastöðum. Fyrir þá hugrökku er þar einnig stórkostlegasti rússíbani Spánar.
Aqualandia er fallegur og tilkomumikill vatnsskemmtigarður fyrir alla fjölskylduna og Mundomar er sædýragarður með höfrunga- og sæljónasýningum.