Kristján Steinsson
fararstjóri
    Upplifðu heillandi heim Túnis þar sem ævaforn saga, litrík menning, eyðimerkurævintýri og afslappað strandlíf fléttast saman í ógleymanlegt ferðalag. Í þessari fjölbreyttu ferð heimsækjum við staði sem hver um sig segir sína sögu, frá Karþagó og Dougga til El Jem og Medínunnar í Sousse. Við göngum um þröng stræti sögulegra borga, dáumst að stórkostlegum mósaíkum, leirkerum og moskum, og finnum fyrir nærveru fortíðar á hverju horni. Við förum í jeppaferð um vinjar og saltheiðar, heimsækjum þorp grafin inn í fjöllin, stígum inn í kvikmyndaveröld Star Wars og gistum í hellum og eyðimerkurbúðum þar sem stjörnubjartur himinn og þjóðleg tónlist skapa einstaka stemningu. Ferðin endar með ljúfri afslöppun við gullna strendur Djerba og Hammamet.

    Kristján er einn af reyndustu og vinsælustu fararstjórum Úrval Útsýnar og hefur hann unnið í ferðabransanum í yfir 30 ár. Hann hefur víðtæka reynslu og leysir öll vandmál eins og hendi sé veifað. Kristján er bæði með leiðsögumenntun og háskólamenntaður í ferðamálafræði.

    Verð frá 899.900 kr.
    per farþega
    Skoða öll verð og bóka
    Dagsetningar
    • 25. apríl – 10. maí

    Verð og dagsetningar

    25. apríl – 10. maí  16 dagar
    Ferð fyrir 2 fullorðna Heildarverð frá
    1.799.800 kr.
    Verð frá 899.900 kr.
    per farþega
    25. apríl – 10. maí  16 dagar
    Ferð fyrir 1 fullorðinn Heildarverð frá
    1.049.900 kr.
    Verð frá 1.049.900 kr.
    per farþega
    Innifalið í verði: Beint flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, 15 nætur á 4–5 stjörnu gistingu með fullu fæði, íslensk fararstjórn, allur akstur samkvæmt ferðalýsingunni, og allar skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingunni.
    Ekki innifalið í verði: Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, þjórfé, tryggingar, persónuleg útgjöld, eða annað sem ekki er nefnt hér fyrir framan.

    Ferðalýsing

    Komdu með í ógleymanlega 16 daga ferð um Túnis, land sem sameinar stórbrotna sögu, lifandi menningu og fjölbreytta náttúru. Hér mætast Miðjarðarhafsblær og eyðimerkurkyrrð, fornar rústir og litríkar Medínur, fjallabæir og hvítar strendur. Ferðin er hönnuð fyrir þá sem vilja meira en hefðbundna ferð, fyrir þá sem leita að sál, skynjun og sönnum upplifunum. Við heimsækjum sögufræga staði á borð við Karþagó, Dougga og El Jem, þar sem steinlögð rústasvæði og stórkostleg hringleikahús bera vitni um áhrif Rómverja, Föníkíumanna og Berba. Við göngum um þröng stræti gömlu borganna í Túnis, Sousse og Kairouan, heimsækjum glæsilegar moskur, fornleifasöfn og markaði þar sem tíminn virðist hafa staðið í stað. Við förum suður um land, heimsækjum vinjar og berbaþorp, rennum yfir saltheiðar í jeppa, röltum um steinlögð fjallaþorp og stígum inn í tökustaði Star Wars. Við gistum í lúxus eyðimerkurbúðum og hellahóteli, njótum tónlistar undir stjörnubjörtum himni og smökkum túniskan mat og bakkelsi í hlýlegu heimahúsi. Ferðin endar við sandstrendur Djerba og Hammamet þar sem við slökum á í hágæða hótelum með sundlaugum og heilsulindum. Leiðsögn er fagleg, gisting vönduð og dagskrá einstaklega fjölbreytt.

    Þetta er ferð sem nærir forvitni, gleður öll skynfæri og skilur eftir sig minningar sem endast.

    Dagskrá

    Dagur 1, laugardagur, 25. apríl 2026 — Komudagur til Túnis

    Við komuna verður tekið á móti okkur og ekið á hótel þar sem við hvílum okkur eftir ferðalagið. Gist yfir nótt í Túnis og kvöldverður á hóteli. 

        Dagur 2, sunnudagur, 26. apríl 2026 — Bardo safnið – Fornminjar Karþagó – Sidi Bou Said

        Eftir morgunverð höldum við í skoðunarferð til Þjóðminjasafnsins Bardo, sem er til húsa í höll frá nítjándu öld og geymir eitt stærsta og merkasta mósaíksafn heims. Því næst ökum við til fornminjasvæðisins í Karþagó, sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þar skoðum við meðal annars rústir af fornum baðhúsum og hringleikahúsi. Við snæðum hádegisverð á staðbundnum veitingastað áður en við heimsækjum hinn töfrandi bæ Sidi Bou Said. Þar tökum við inn stemninguna í hvítu og bláu húsunum, njótum blómskrúðsins og útsýnisins yfir Miðjarðarhafið. Við fáum smá  frjálsan tíma til að skoða okkur um, versla eða setjast niður með hefðbundið piparmyntute. Við endum daginn á Café des Délices þar sem við njótum útsýnisins áður en við snúum aftur á hótelið. Kvöldverður og gisting í Túnis.

            Dagur 3, mánudagur, 27. apríl 2026 — Túnis – Testour – Dougga – Kairouan

            Eftir morgunverð ökum við til bæjarins Testour, sem er fallegur andalúsískur bær með sögulegum byggingum og sérstökum klukkuturni þar sem úrskífan snýst öfugt. Þar skoðum við miðbæinn og moskuna áður en haldið er áfram til Dougga. Dougga er ein best varðveitta rómverska borgin í Afríku og einnig á heimsminjaskrá. Við göngum um rústirnar, dáumst að leikhúsinu og líflegu steinaristunum sem lýsa lífi og menningu á tíma Rómverja. Við snæðum hádegisverð í nágrenninu áður en við ökum áfram til Kairouan, sem er ein helgasta borg Íslamstrúar og mikilvæg trúarleg miðstöð. Kvöldverður og gisting í Kairouan.

                Dagur 4, þriðjudagur, 28. apríl 2026 — Kairouan – Tozeur

                Dagurinn hefst með morgunverði og í kjölfarið förum við í skoðunarferð um Kairouan. Við heimsækjum hina áhrifamiklu Stóru mosku borgarinnar, sem telst ein sú elsta og mikilvægasta í íslamskri byggingarlist. Við stoppum einnig við Barber moskuna, sem tileinkuð er einum fylgjanda Múhameð og lítum inn í Aghlabid-vatnsgeyminn, verkfræðilegt undur frá miðöldum. Eftir það göngum við um gömlu medínuna og heimsækjum handverkshús þar sem við fáum að smakka hefðbundið bakkelsi. Eftir hádegisverð ökum við suður í átt til Tozeur þar sem gist verður næstu nótt. Á leiðinni njótum við breytilegs landslags og stöðvum eftir þörfum til að taka myndir eða rétta úr okkur.   Ef aðstæður leyfa fáum við að upplifa töfra Tozeur með túniskri kvöldskemmtun í náttúrulegu umhverfi, umlukt gróðri og hefðbundnum innréttingum sem skapa einstaka stemningu.  Að öðrum kosti getum við notið kvöldverðar á dvalarstaðnum okkar, en að honum loknum er boðið upp á hljóð- og ljósasýningu sem endurskapar frægustu sögur Austurlanda. Sýningin fer fram í glæsilegri eftirlíkingu af gamalli höll, þar sem finna má safn leirkerja, skartgripa, búninga og annarra fornra muna ásamt listagalleríi.   Gisting og kvöldverður í Tozeur. 

                    Dagur 5, miðvikudagur, 29. apríl 2026 — Tamerza – Chebika – Star wars kvikmyndastaður – Douz Sahara

                    Við byrjum daginn með morgunverði áður en við leggjum af stað í ævintýraferð á fjórhjóladrifnum jeppum í átt að vinjunum Tamerza og Chebika. Við njótum landslagsins þar sem fjöllin, gróðurinn og fossarnir bjóða upp á stórbrotið útsýni. Í Chebika förum við í stutta gönguferð með leiðsögn þar sem við kynnumst sögu svæðisins og náttúrufegurðinni. Þaðan höldum við áfram til Mos Espa, þekkts kvikmyndatökusvæðis úr Star Wars, þar sem við sjáum upprunalegar sviðsmyndir og náttúruundrið Ong Jemal, klettamyndun sem minnir á úlfalda. Við snæðum hádegisverð á Eden Palm, þar sem við fáum einnig að smakka vörur úr pálmatrjám og njóta stuttrar vagnferðar um svæðið. Eftir hádegi ökum við yfir hina víðfeðmu saltheiði Chott El Jerid á leið okkar til eyðimerkurinnar. Þar bíður okkar einstök upplifun þar sem við gistum í lúxusbúðum í eyðimörkinni í Ksar Ghilane. Kvöldverður verður borinn fram og við eigum notalega stund undir stjörnubjörtum himni í eyðurmörkinni. Gisting í Sahara.

                        Dagur 6, fimmtudagur, 30. apríl 2026 — Ksar Ghilane – Tamezret – Matmata

                        Við hefjum daginn snemma með morgunverði. Fyrir áhugasama býðst valkostur að njóta sólarupprásar á baki úlfalda eða í fjórhjólaför um eyðimörkina. Greiða þarf aukalega á staðnum. Við kveðjum eyðimerkurbúðirnar og ökum í átt að Tamezret, berbaþorpi sem stendur hátt í fjöllunum og er þekkt fyrir sérkennilega hleðslu og menningararf. Því næst förum við til Matmata, þar sem við heimsækjum jarðhýsi, hefðbundin híbýli innfæddra sem grafin eru ofan í jörðina til að veita skjól fyrir hita dagsins. Þar snæðum við hádegisverð með heimamönnum og upplifum daglegt líf á svæðinu. Í lok dags heimsækjum við hótelið Sidi Driss, enn einn Star Wars tökustaðurinn, sem hefur varðveitt upprunalegt útlit sviðsmynda úr fyrstu myndunum. Gist í Matmata, kvöldverður á hóteli. 

                            Dagur 7, föstudagur, 1. maí 2026 — Toujane – Ksar Hadada – Chenini – Douiret

                            Eftir morgunverð leggjum við af stað í gegnum hrjúft og töfrandi landslag í átt að Toujane, litlu berbaþorpi sem er innrammað af fjöllum. Þorpið er þekkt fyrir ullarvörur og litríkan heimilisiðnað, og hér gefst tækifæri til að staldra við, njóta útsýnis og líta á handverk heimamanna. Við höldum áfram til Ksar Hadada, sem margir kannast við úr kvikmyndunum um Star Wars. Þar skoðum við gömlu korngeymslurnar, sem áður þjónuðu sem vopnabúr, vistarverur og markaðsstöðvar fyrir berbaþjóðflokka – og mynda í dag óvenjulegt og heillandi rými sem hefur verið notað sem sviðsmynd í kvikmyndagerð. Því næst ökum við til Chenini, þorps sem stendur uppi á fjallshlíð og er eitt af merkustu berbaþorpum suðurhluta Túnis. Dáumst að Ksar virkinu sem stendur í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli og var notað til geymslu matvæla og verðmætra vara, þjónaði einnig sem hæli ef árás yrði gerð á þorpið. Við snæðum hádegisverð í rólegu og hefðbundnu umhverfi áður en við heimsækjum  Ksar Ouled Soltane, sögulegt hæðarbýli þar sem finna má tvo garða með glæsilegum korngeymslum sem hafa varðveist frá fornöld. Síðan endum við í bænum  Douiret, annars forns fjallaþorps þar sem gistum yfir nótt í sérstöku nútíma hellahóteli. Kvöldverður á hóteli. 

                                Dagur 8, laugardagur, 2. maí 2026 — Djerba

                                Við byrjum daginn með morgunverði og ökum þaðan til eyjunnar Djerba, sem liggur við suðausturströnd Túnis og er þekkt fyrir afslappað andrúmsloft og gyðinglega arfleifð. Við heimsækjum El Ghriba samkunduhúsið, sem er eitt elsta sinnar tegundar í Afríku og mikilvægur staður fyrir gyðinga í Norður-Afríku. Við snæðum hádegisverð og höldum að því loknu áfram í Djerbahood, listrænt hverfi í miðri Medínu Houmt Souk, þar sem tugir alþjóðlegra listamanna hafa skreytt húsveggi með fjölbreyttum vegglistaverkum. Síðla dags innritum við okkur á hótelið í Djerba, snæðum kvöldverð á hóteli og njótum kyrrðarinnar við Miðjarðarhafið. 

                                    Dagur 9, sunnudagur, 3. maí 2026 — Djerba – Guellala – Houmt Souk

                                    Eftir morgunverð ökum við til Guellala, sem er þekkt fyrir leirkeragerð og handverk. Þar fáum við að fylgjast með keramikgerð og skoða verkstæði heimamanna. Við höldum svo áfram til Houmt Souk, aðalborgar Djerba, þar sem við röltum um markaðina, veltum fyrir okkur kryddum, teppum og handverki og njótum ilmsins og litadýrðarinnar sem einkennir svæðið. Við snæðum hádegisverð á staðbundnum veitingastað og förum svo tilbaka á hotel. Gisting og kvöldverður í Djerba.

                                        Dagur 10, mánudagur, 4. maí 2026 — Frídagur á Djerba

                                        Frjáls dagur. 

                                        Gisting og kvöldverður í Djerba.

                                            Dagur 11, þriðjudagur, 5. maí 2026 — El Jem – Monastir – Sousse

                                            Eftir morgunverð yfirgefum við Djerba og ökum norður í átt að El Jem, þar sem við skoðum eitt glæsilegasta hringleikahús fornaldar utan Ítalíu. Hringleikahúsið, sem er á heimsminjaskrá, minnir á Colosseum og sýnir glæsilega rómverska byggingarlist. Við snæðum hádegisverð og höldum síðan áfram til strandborgarinnar Monastir. Þar heimsækjum við Ribat-virkið sem gnæfir yfir sjóinn og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sögu borgarinnar. Seinnipart dags er ekið til Sousse þar sem gist verður yfir nótt, kvöldverður á hóteli.

                                                Dagur 12, miðvikudagur, 6. maí 2026 — Sousse – fornleifasafn – Medína

                                                Við hefjum daginn með morgunverði áður en við leggjum af stað í skoðunarferð um hina sögufrægu strandborg Sousse, sem hefur verið miðstöð verslunar og menningar í aldaraðir. Við byrjum á að heimsækja Kasbah-virkið, sem gnæfir yfir borgina og hýsir eitt merkasta fornleifasafn Túnis. Þar förum við í ferðalag aftur í tímann, í gegnum stórbrotið mósaíksafn frá rómverskum tíma, forn gripasöfn, styttur og listmuni sem varpa ljósi á daglegt líf og trúarbrögð til forna. Útsýnið af virkinu er engu líkt, þar sjáum við bæði yfir Medínuna og út á haf. Eftir safnsheimsóknina göngum við niður í sjálfa Medínu Sousse, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar röltum við um þröngar og krókóttar götur, fram hjá litlum verslunum, torgum og iðandi markaðslífi þar sem ilmur af kryddum, jurtum og bakstri svífur um göturnar. Við snæðum hádegisverð í hjarta gamla bæjarins og höldum síðan áfram í heimsókn í Ribat-virkið, sem var reist á áttundu öld. Þetta virki gegndi bæði hernaðarlegu og trúarlegu hlutverki og stendur enn í dag sem minnisvarði um snjalla byggingartækni og helga þjónustu. Seinnipart dagsins gefst frjáls tími til að njóta Medínunnar frekar, versla minjagripi eða slaka á yfir tei á kaffihúsi. Kvöldverður og gisting í Sousse.

                                                    Dagur 13, fimmtudagur, 7. maí 2026 — Hammamet – Gamli bærinn og höfnin

                                                    Eftir morgunverð kveðjum við Sousse og ökum til vinsæla strandbæjarins Hammamet, sem er þekktur fyrir sitt afslappaða andrúmsloft, glæsilegar sandstrendur og menningarlega arfleifð. Við byrjum á að skoða Medínuna, þar sem við röltum um þröngar götur innan virkisveggjanna og njótum hefðbundinnar byggingarlistar. Við komum við í El Kasbah, virkinu sem gnæfir yfir sjóinn, og lítum yfir gömlu höfnina. Eftir hádegisverð heimsækjum við nútímalega hverfið Yasmine Hammamet þar sem finna má verslanir, kaffihús og lystigarða. Þar gefst tími til að skoða sig um eða hvíla sig við sjávarsíðuna. Gisting í Hammamet og kvöldverður á hóteli.

                                                        Dagur 14, föstudagur, 8. maí 2026 — Frídagur í Hammamet

                                                        Frjáls dagur.

                                                        Gisting í Hammamet og kvöldverður á hóteli. 

                                                            Dagur 15, laugardagur, 9. maí 2026 — Nabeul – Kerkouane – Tunis 

                                                            Eftir morgunverð leggjum við af stað í ferðalag um Cape Bon-skagann. Fyrst stoppum við í Nabeul, bæ sem er þekktur fyrir leirkeragerð og handverk. Þar gefst tækifæri til að skoða markaði og kaupa fallega minjagripi. Við höldum síðan áfram til fornminjasvæðisins Kerkouane sem er á heimsminjaskrá. Þetta er ein örfárra fönískra borga sem hefur varðveist vel og ekki verið byggð yfir. Þar fáum við innsýn í daglegt líf og byggingarlist Forn-Grikkja og Föníkíumanna. Hádegisverður er snæddur á veitingastaðnum La Daurade við sjávarsíðuna, þar sem við njótum fersks sjávarfangs í rólegu umhverfi. Að því loknu höldum við til Tunis, þar sem við skoðum gömlu borgarhverfin í miðborginni, þar á meðal Medina Tunis og Bab el Bhar, hliðina sem skilur að nýja og gamla hluta borgarinnar.  Gist í Tunis yfir nótt og kvöldverður á hóteli.

                                                                Dagur 16, sunnudagur, 10. maí 2026 — Brottför frá Túnis

                                                                Eftir morgunverð verður okkur ekið út á flugvöll fyrir heimför.

                                                                    Gistingar í boði

                                                                    Athugið

                                                                    • Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
                                                                    • Staðfestingargjald er 120.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
                                                                    • Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
                                                                    • Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.