Hér er komið afbragðs ferðaplan á fjarlæga og framandi eyju í Indlandshafi. Á rúmlega vikuferð um Sri Lanka verða allir helstu staðir eyjunnar þræddir svosem Negombo, Sigiriya, Nuvara Eliya, Yalaþjóðgarðurinn, Kandy og fleiri markverðir og heillandi staðir. Eftir átta nætur á ferðalagi er komið að strandsældinni við Kalutara þar sem fimm dagar í blíðu og sæld gefa ferðalöngum tækifæri til að melta allt sem fyrir augu hefur borið, njóta strandlífsins eða bæta við sig völdum sérferðum því ekki er ólíklegt að einhverjir verði svo heillaðir af Sri Lanka að þeir vilji halda áfram að rannsaka og njóta menningar og nátturu þessarar einstöku eyju.
Vilmundur Hansen, fararstjóri, er garðyrkju- og grasafræðingur, auk þess að stunda nám í mann- og trúarbragðafræði, en hefur lengst af starfað sem blaðamaður. Hann hef ferðast víða um heim bæði á eigin vegum og sem fararstjóri. Vilmundur hefur skrifað fjölda greina um ferðalög en er þekktastur fyrir að halda úti facebook-síðunni Ræktaður garðinn þinn þar sem hann fjalla um allt milli himins og jarðar sem tengist ræktun og gróðri.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, morgunverður í tilgreindum tvíbýlum, allur akstur á milli flugvalla og gististaða einsog tilgreint er í ferðalýsingunni, aðstoð og leiðsögn innlendra aðila, og allar tilgreindar ferðir með aðgangseyrir, akstri og öðru tilheyrandi.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, eða þjórfé, persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt hér að framan.
Ferðalýsing
Sumir eiga erfitt með að benda á Sri Lanka á korti. Og kannski er það ágætt, því að það þýðir að við hin sem vitum hvað eyjan hefur upp á að bjóða höfum hana út af fyrir okkur. Þetta litla dropalaga eyríki leynist rétt suður af suðurodda Indlands, rúmlega helmingi stærri að flatarmáli en Danmörk. Það er ekki langt síðan ráðlegt þótti að ferðast til Sri Lanka því að þar geisaði borgarastyrjöld í aldarfjórðung og lauk átökunum ekki fyrr en árið 2009 þegar Tamíl-Tígrarnir voru endanlega kvaddir í kútinn.
Og mikið var nú gott að átökunum skyldi linna því að Sri Lanka er lítill gimsteinn með óviðjafnanlega náttúru, heillandi mannlíf og merkilega sögu. Samfélagið er undir sterkum áhrifum frá búddismanum en um leið sjást greinileg áhrif frá nýlendutímanum hvert sem litið er. Portúgalarnir komu fyrstir árið 1505 og kölluðu eyjuna Ceylon. Einni og hálfri öld síðar komu Hollendingarnir og loks hrifsuðu Bretarnir til sín eyjuna seint á 18. öld enda á hernaðarlega mikilvægum stað, og ekki dró teræktunin úr áhuga Georgs III og félaga. Englendingar þurfa jú tebollann sinn.
Er ekki kominn tími á að lenda í alvöru ævintýri? Hvernig væri að ferðast á framandi slóðir, utan alfaraleiðar, þar sem náttúran er í alvörunni villt og fólkið eins og úr fornum ferðasögum?
Náttúran er villt og ósnortin og eyjaskeggjar halda enn fast í sögulegu ræturnar. Handverksmenn virðast vera við hvert fótmál og listsköpunin einstök. Teplöntur dafna í heitri sólinni á meðan hlébarðar, fílar og krókódílar spóka sig um í þjóðgörðum sem eiga engan sinn líka.
Eyjan er skoðuð frá fjöru til fjalla og hugsa sérfræðingar Úrval Útsýn fyrir öllu.
Eftir lendingu í Kolombó hefst reisan í Negombo þar sem áhrif hindúismans, búddismans og gömlu nýlenduherranna blandast saman með einstökum hætti. Siglt verður á Negombovatni síðdegis en hollt er að hafa dagskrá fyrsta dags, eftir lang flug, hófstillta og tryggja að ferðalöngum gefist tækifæri til að lenda vel. Eftir góðan nætursvefn og hressandi morgunverð fer hópurinn sem leið liggur að skýjavirkinu Sigiriya, UNESCO-reit þar sem kóngurinn Kasyapa lét reisa sér glæsilega höll fyrir rösklega 1.500 árum.
Þegar sólin kemur upp á fjórða degi fer ekki lengur milli mála að Sri Lanka er land sem er engu líkt. Deginum er varið í að skoða Dambulla hellamusterið. Þar hafa búddastytturnar fundið sér skjól undir klöppinni og umgjörðin þannig að engum myndi bregða þó að Indiana Jones tæki upp á því spretta fram, í leit að löngu horfnum fjársjóði.
Við heimsækjum Polonnaruwa, sem var ein af höfuðborgum eyjunnar á 11. öld. Þar er ekki aðeins að finna óviðjafnanlegar minjar heldur má líka, ef heppnin er með, rekast á fílahjarðir á leið sinni að vatnsbólunum.
Næsta dag er viðkomustaðurinn borgin Kandy. Ekki er nóg með að þessi forna borg konunga og helgra manna sé skemmtileg að skoða heldur gefst hér tækifæri til að fræðast um kryddhefðir og matarmenningu landsins – og fá örstutt nudd og dekur. Menningardagskráin heldur áfram um kvöldið með sýningu á heillandi þjóðdönsum og helgiathöfn í hindúamusteri.
Sjötti dagurinn er dagur fílanna. Þessar yndislegu og spöku skepnur eiga góða vini í fila-munaðarleysingjahæli í Pinnawala, og finnst gaman að heilsa upp á gesti sem ber að garði. Það fyrirgefst þó að stöku brandari um tengdamæður sé látinn flakka.
Þeim sem finnst tesopinn góður kannast við gamla nafn Sri Lanka: Ceylon. Á sjöunda deginum skoðum við teræktarhéröðin, og heimsækjum bæinn „Litla England“ sem breskir tebændur byggðu á 19. Öld. Sagt er að 18. holu golfvöllurinn rétt hjá bænum sé einn sá fegursti í allri Asíu.
Þegar ferðast er til Sri Lanka má ekki sleppa því að fara í safarí í frumskóginum. Á áttunda degi skoðar hópurinn Yala þjóðgarðinn, þar sem fílar, krókódílar, dádýr og apakettir eiga heima. Ef heppnin er með verður kannski hægt að koma auga á hlébarða, og bera honum kveðju frá pattaralegu köttunum í Þingholtunum.
Eftir rösklega vikulangt ferðalag er kominn tími til að slaka á. Laufin á pálmatrjánum sveiflast blíðlega í vindinum og hvítur sandurinn kyssir tærnar á ströndinni í Beruweala, og ekki annað í boði en að njóta lífsins þegar komið er á þennan sælureit; fylla magann af veisluréttum og svalandi veigum, á meðan hver einasti vöðvaþráður fær rækilegt nudd fyrir ferðina heim.
Telja má víst að ævintýramaðurinn og heimshornaflakkarinn Árni Magnússon frá Geitastekk hafi verið fyrsti Íslendingurinn til að koma til Srí Lanka. Í ferðasögu sinni segir Árni frá því er hann siglir með dönsku kaupskipi til Kína árið 1760 með viðkomu á Srí Lanka, eða Ceylon eins og eyjan hét á þeim tíma. Af lýsingu Árna að dæma er ekki að sjá að hann hafi mikið álit á eyjarskeggjum; hann kallar þá heiðingja og telur gestrisni þeirra lítið annað en tilraun til að hafa fé af skipsverjum „Þeir voru gulir að lit, höfðu engin klæði á sínum kropp, hvorki hátt né lágt, voru með ávexti og bómolíu, er þeir vildu fá silfurpeninga fyrir. Þeir vildu, að vér skyldum koma í land og sjá þeirra bústaði og kvenfólk samt landsins pródúkt og ásigkomulag.“
LEIÐANGUR ÚRVAL ÚTSÝN UM SRI LANKA
Þessi ferð er vandlega tálguð og sniðin að því að opinbera það athyglisverðasta á eyjunni Sri Lanka. Val okkar á áfangastöðum og tilhögun allra ferða er byggð á reynslu frá fjölda undangenginna ferða síðustu ára. Hótel og allur aðbúnaður er fyrsta flokks í ferðinni. Vel staðsett og elegant hótel og máltíðir sem ætlað er að mæta væntingum hinna ævintýragjörnu en um leið nógu öruggar fyrir hina varkáru.
Þegar flogið er mörg tímabelti austur um hálfan hnött í langflugum er mikilvægt að velja sem besta flugleið og flugfélög. Við kjósum að fljúga með Icelandair og Emirates flugfélaginu sem er talið eitt allra best flugfélag í heimi.
Farið er um Osló og Dúbaí á leiðinni til Kólombó. Sri Lanka er 5,5 klst á undan Íslandi. Lagt af stað að morgni mánudagsins 14. apríl eða kl 07:50. Eftir stutt stopp í Osló er flogið kl. 14:35 áfram austur og lent að morgni næsta dag í Kólombó eftir millilendingu í Dúbaí.
Heimflugið er frá Kólombó eftir miðnætti mánudagsins 28. apríl eða kl 03:05 þegar flogið er till Dúbaí og svo áfram til Osló þar sem lent verður 12:35. Lokaleggurinn er flug til Keflavíkur 13:50 og lent 14:45 sama dag.
Flugin eru á einum flugmiða svo tengingar eru á ábyrgð Emirates og hægt er að innrita farangur alla leið. Leyfður er 30 kg farangur auk handfarangurs.
Hafið samband við asiuferdir@uu.is ef óskað er eftir nánari upplýsingum um ferðina.
Athugið
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.
Flug með Emirates og Icelandair
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina og endurgreiða staðfestingargjald. Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Vegabréf þurfa að gilda í minnst 6 mánuði umfram áætlaða heimkomu. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.