Hvergi annars staðar á heimskringlunni finnur þú jafn mikla fjölbreytni og á Indlandi. Aðra eins litadýrð í mannlífi og menningu er vart hægt að hugsa sér. Á Indlandi kynnist þú glaðlegu og gestrisnu fólki, óvenjulega litríkum klæðaburði og andrúmslofti sem einkennist af æðruleysi og gagnkvæmri virðingu.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, innanlandsflug á Indlandi á milli Jaipur og Varanasi og frá Varanasi til Delí, 15 kg farangursheimild, gisting með morgunverði, hádegismatur 3 daga og kvöldverður 8 kvöld, og allur akstur, skoðunarferðir og aðgangseyrir og leiðsögn innlendra leiðsögumanna.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritun, ferðaskilríki og afgreiðslu á landamærum eða þjórfé, tryggingar, persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt sérstaklega hér að framan.
Ferðalýsing
Kjarnmikil ferð þar sem við upplifum allan þann fjölbreytileika sem landið hefur uppá að bjóða. Svo er náttúrulega um að ræða eldinn sjálfan, þennan frumkraft sem heimamenn beisla hvarvetna úti á götum, við matreiðslu og helgisiðum og umbreyta hráefni í mat og flytja hinn látna yfir í næsta líf.
Leitast verður við að opna og kynna forna sögu, flókna menningu og fjölskrúðugt mannlíf lands og þjóðar sem er í raun heimsálfa hvað stærð og fjölbreytileika varðar.
Í þessari ferð viljum við komast að kjarnanum og ná að skilja eitthvað í þessum flókna heimi þar sem guðirnir teljast 1200, mannfólkið á annan milljarð og matarmenningin á viðlíka skala. Ferðalangar munu smakka kröftug karrí, hitta görótta gúrúa og furða sig á langri sögu og fjölskrúðugu mannlífi Indlands.
Hafið samband við asiuferdir@uu.is til að fá nánari upplýsingar og dagskrá.
Helstu áfangastaðir og kaflar þessarar ferðar:
Delí
Við hefjum ferðina í Delí, höfuðborg landsins. Ótal heimsveldi og konungdæmi hafa lagt Delí undir sig og hún hefur margoft verið hertekin, rænd og endurbyggð. Nú á dögum er Delí bræðingur fjögurra menningarvelda, þ.e. búddadóms, hindúasiðar, íslam og Bretaveldis. Þetta er ein kaótískasta borg jarðar, menn, bílar og kýr keppast um hvern fermetra á götunum en meðal töfra borgarinnar er að fylgjast með öllu þessu kraðaki og uppgötva hið dulda skipulag sem lætur allt ganga upp.
Í Delí sjáum við ýmiss konar staði sem eru menjar um áðurnefndar fjórar menningarstefnur og minna okkur á sögu borgarinnar allt frá miðöldum til daga Mahatma Gandhis. Við sjáum lifandi markaði, eina stærstu mosku í heimi, risastóra höll breska landstjórans og fleira athyglisvert í þessari mögnuðu borg.
Agra
Frá höfuðborg landsins höldum við til borgar sem er algjör andstæða við ysinn og þysinn í Delí, Agra í indverska fylkinu Uttar Pradesh. Þar stofnuðu múslimar veldi Mógúla á 16. öld, um líkt leyti og Íslendingar voru að snúast til lútherstrúar, og byggðu ein glæsilegustu mannvirki jarðarkringlunnar. Þeirra frægast er án efa Taj Mahal, grafhýsi sem ekki er hægt að lýsa í orðum, hver og einn verður að upplifa það á eigin spýtur. Í Agra eru þrjú mannvirki sem eru á lista UNESCO yfir merkustu menningarminjar jarðar og munum við jafnframt skoða; Agra-virkið og hallarsvæðið Fatehpur Sikri.
Jaipur
Eftir að hafa virt fyrir okkur hinar glæstustu menjar um hið múslimska Mógúlaveldi ökum við til Jaipur í fylkinu Rajasthan. Hér gefur að líta enn eitt birtingarform fjölbreytileikans á Indlandi, vel skipulögð borg sem einkennist af gullfallegum byggingum í bleikum lit, því oft kölluð „bleika borgin“. Við ríðum upp í Amber-virkið á fílsbaki, skoðum Höll vindanna, Hawa Mahal, og konungshöllina í Jaipur sem m.a. státar af garðinum Jantar Mantar sem er ein samfelld stjörnuskoðunarstöð.
Jaipur er jafnframt einstaklega þægileg borg til að rölta um á eigin vegum, líta í verslanir, gæða sér á indverskum bjór á einni af knæpum bæjarins og taka púlsinn á mannlífinu.
Varanasi
Síðasti áningarstaður okkar er um margt sá eftirminnilegasti, helga borgin Varanasi (áður Benares) við ána Ganges. Búið ykkur undir að kynnast einhverjum litríkasta, fallegasta, óskipulagðasta og mest heillandi stað á jarðríki. Engin önnur borg gefur eins sterka upplifun af hinu sanna Indlandi þar sem kallast á iðandi mannlíf og dulúðugir helgisiðir. Áin Ganges er lífæð borgarinnar, þangað fara íbúar að lauga sig, hreinsa klæði og líkama jafnt sem sál því vatnið þykir heilagt, þangað koma Indverjar hvaðanæva að til að fá andlegan innblástur og kveðja látna ástvini þar sem margir Indverjar óska þess að verða brenndir í Varanasi og að öskunni verði dreift í Ganges. Sú var jafnframt hinsta ósk bítilsins George Harrison.
Varanasi er um margt dálítið erfitt að melta en að sama skapi fer enginn þaðan ósnortinn
Ferðatilhögun
Flogið með Finnair um Helsinki. Einn flugmiði alla leið sem tryggir tengiflug og gefur kost á að innrita farangur alla leið.
Á heimleið verður dvalið eina nótt í Helsinki. Lent kl 14:10 eftir hádegi föstudaginn 14. mars og haldið inn í borgina þar sem dvalið verður fram að morgni næsta dag þegar flogið er klukkan 07:20 til Keflavíkur og lent þar 09:15. Kristján Steinsson fararstjóri þekkir Helsinki vel og mun leiðbeina með skoðun á Helsinki fyrir þá sem hafa áhuga á að kanna þá spennandi borg.
Athugið
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.