Verð og dagsetningar
Viltu bóka ferð, fá tilboð í verð, eða fá frekari upplýsingar?
Hafðu samband í +354 585 4000 eða sendu okkur póst á info@uu.is
Við sérsníðum ferðina að þínum óskum.
Ferðalýsing
Fljótasigling: Frá Ho Chi Min borg (Saigon) til Siem Reap
Mekong, „Móðir vatnanna“ eða „Níl austursins“, er eitt af stærstu fljótum heims. Það er talið vera í 11. sæti hvað lengd varðar og í því 12. ef litið er til vatnsmagns. Upptök fljótsins eru á tíbetska hálendinu þaðan sem það rennur suður á bóginn í gegnum Kína, Myanmar (Burma), Taíland, Laos, Kambódíu og til hafs í Víetnam. Siðmenningar svæðisins eiga að mestu uppruna sinn við fljótið, meðal annars hinir dularfullu Khmer í Kambódíu.
Ferðin samanstendur af 2 nóttum í Ho Chi Min borg, 7 nóttum á AmaDara fljótaskipinu og 2 nóttum í Siem Reap.
Verðdæmi á mann í tvíbýli: Charms of Mekong, 14.-28 nóv: Frá 850.000 kr. í B-herbergi *
*Innifalið: Vikulöng sigling með fullu veislufæði og eðalvínum að vild, allar skoðunarferðir, siglingaskattar, 2 nætur í Saigon fyrir siglingu og 2 nætur í Siem Reap eftir siglingu (með fararsrstjórn og skoðunarferðum), þjórfé um borð (nema fyrir staðarleiðsögumen í skoðunarferðum) og viðmiðunar-flugfargjald frá Íslandi til Saigon og heim frá Siem Reap.
Fyrirvarar: Verð miðast við verðlista AmaWaterways 15. jan. 2020 og getur tekið breytingum. Flugfargjald getur breyst og stilla þarf af flugdaga m.t.t. siglingar. Verð miðast við gengi bandaríkjadollars 25. janúar 2020. Krafist er vegabréfsáritunar til Víetnam (útgefin fyrir brottför að heiman) og Kambódíu (gefin út ytra um borð í skipinu, þar þarf að leggja fram 2 passamyndir).
Í HNOTSKURN
Í siglingum okkar kappkostum við að bjóða upp á úrval skoðunarferða sem innifaldar eru í verði. Oftast eru í boði nokkrar ferðir sem velja má milli, t.d. standard túra, hjólatúra, gönguferða eða sérferða á mið ýmissa áhugasviða. Við leggjum mikið upp úr fjölbreytni og keppumst við að finna spennandi upplifun fyrir alla gesti okkar.
(M) = morgunerður; (H) = hádegisveröur; (K) = kvöldverður
Dagskrá
Dagur 1 — Flug til Suð-austur Asíu
Til dæmis: Flogið frá Keflavík að morgni dags með Icelandair til Kaupmannahafnar. Eftir stuttan stans er flogið í austurátt með Thai Air og lent í Bangkok snemma morguns að staðartíma næsta dag, stuttu síðar er flogið áfram með Thai Air og lent í Saigon tæpum 2 klst. síðar.
Dagur 2 — Komið til Saigon
Borgarandinn í Ho Chi Min borg (áður Saigon) er einstakt sambland austrænnar menningar undir vestrænum áhrifum en áður fyrr var borgin uppnefnd “París suð-Austur Asíu”, (M).
Dagar 3–4
Næstu tvær nætur verður gist í Ho Chi Minh borg. Boðið verður upp á fróðlegar ferðir um þessa seiðandi og ólgandi borg og færi gefst til að líta í verslanir þar sem verðlag virðist oft á tíðum komið aftur úr fornöld, (M).
Dagur 5 — Til skips
Á leið til My Tho hafnarinnar verður komið við á Ben Thanh markaðinum, einum elsta og stærsta markaði borgarinnar. Í My Tho bíður skipið, AmaDara, við bryggju. Áhöfnin tekur prúðbúin á móti farþegum, kynnir skipið og þá fylgir innskráning í herbergi. Um kvöldið hittast allir í kvöldmat og síðan hefst siglingin, (M,K).
Dagur 6 — Cai Be og Sa Dec
Farið verður á litlum bátum til hafnar Cai Be þar sem m.a. verður kíkt í heimsókn á vinnustofur þar sem unnið er með sælgæti og hrísgrjónapappír og jafnvel litið inn í Kiet sem er gamalt hús frá fyrri tíð. Síðdegis gefst kostur á heimsókn til bæjarins Sa Dec sem er litríkur og líflegur bær á ósasvæði Mekong, (M, H, K).
Dagur 7 — Tan Chau og yfir landamærin
Þennnan dag gefst kostur á að kynnast þorpinu Tan Chau sem afar fáir ferðamenn hafa haft tækifæri til að heimsækja. Hér gefst möguleiki á tveimur skoðunarferðum: Annars vegar ferð um bæinn með hefðbundnum „xe-loi“ – farþegakerru aftan í reiðhjóli – og kíkt á vinnustofur sem vinna m.a. með silki og bambus. Hins vegar verður boðið upp á bátsferð sem fer um þröngar kvíslar Mekong til nokkurra fallegra staða, þar á meðal til litla þorpsins „Evergreen Island“. Eftir að snúið er til baka til skipsins verður siglt að landamærum Kambódíu þar sem framkvæmd er vegabréfaskoðun og síðan haldið áfram til Phnom Pehn. ATHUGIÐ: Við vegabréfaskoðun þarf að leggja fram tvær passamyndir, (M, H, K).
Dagur 8 — Phnom Penh
Snemma morguns kemur AmaDara til hafnar í Phnom Penh, núverandi höfuðborgar Kambódíu. Fyrir hádegi er boðið upp á tilfinningaþrungna ferð á blóðvellina „Killing Fields“ og í Tuol Sleng S21, sem er safn helgað þjóðarmorðunum. Á sama tíma verður boðið upp á ferð á helsta markaðinn í Phnom Penh. Eftir hádegismat verður boðið upp á ferð á vit helstu sérkenna borgarinnar, t.d. franskan arkitektúr nýlendutímans, einstæða kaffihúsamenningu og litríkt næturlífið. Þá verða á veginum konungshöllin og þjóðminjasafnið. Eftir að komið er til baka um borð verður boðið upp á þjóðdansa þar sem börn eru í aðalhlutverkum. Skipið mun liggja utan við Phnom næstu tvær nætur, (M, H, K).
Dagur 9 — Oudong og Kampong Tralach
Ekki fjarri höfuðborginni er borgin Oudong sem ríkir yfir nágrenninu, þar sem hún situr uppi á lágu felli. Oudong var höfuðborg keisaraveldis Kambódíu frá miðri 17. öld til 1866. Borgin er einn helgasti staður kambódísku þjóðarinnar og við getum slegist í för með pílagrímum og fengið blessun búddískra munka. Einnig verður boðið upp á göngutúr um borgina og í Kampong Tralach gefst kostur á að fara í túr með uxa-kerru. Þegar snúið verður aftur til Phnom Penh verður farið í skoðunarferð með tuk-tuk-bílum, (M, H, K).
Dagur 10 — Silkieyjan Oknhatey og Angor Ban
Um morgunin heldur siglingin áfram til Oknhatey eyju sem oft er talin miðastöð silkivefnaðar í Kambódíu en eyjan liggur nálægt fljótsbökkunum. Við munum kynnast aldagömlum vinnuaðferðum silkigerðarinnar og heimsækja barnaskóla. Að lokinni heimsókninni verður siglt til Angor Ban, (M, H, K).
Dagur 11 — Angor Ban og Kampong Cham
Angor Ban er eitt fára þorpa sem ógnarstjórn liðsveita Rauðu Khmeranna lagði ekki í rúst á 8. áratug síðustu aldar. Enn búa íbúar þorpsins í viðarkofum sem hvíla á stultum með einföldum þökum og bananaplöntur veita helsta skjólið. Vinnulag og aðferðir hafa litlum breytingum tekið í aldanna rás. Skipið siglir síðan á næsta áfangastað sem er Kampong Cham. Þar er í boði sigling á smærri bátum að “Tvíburatindunum”, Phnom Pros og Phnom Srei (karl og kona). Sagan segir að fjöllin tvö hafi myndast í kjölfar átaka karla og kvenna um hvort kynið skildi ráða hjónaböndum í fornu konungsríki. Um kvöldið verður kveðjuveisla um borð, (M, H, K). (Á tímabilinu ágúst-september er höfn Angor Ban stundum lokuð og verður þá lagst að, við Wat Hachney).
Dagur 12 — Farið frá borði
Farið frá borði og ekið með rútu til Siem Reap sem er fyrrum höfuðborg Khmeranna og hliðið að einum stórfenglegasta fornleifafundi síðari ára, Angor-hofin (eru á heimsminjalista UNESCO). Þennan dag verður farið til Ta Prohm, “konungdæmi trjánna”, þar sem voldugar rætur umvefja gamlar hofrústir, (M).
Dagur 13 — Angkor Wat og Bayon
Eftir morgunmat þennan síðasta dag ferðarinnar er farið í skoðunarferð um Angor Wat sem Surayavarman II byggði á 13. öld til heiðurs Vishnu, guði Hindúa. Eftir hádegið berjum við augum það sem talið er bera hæst af öllu ríkidæmi Angor, Banteay Srfei, sem þýðir “virki kvennanna” þar sem fíngert mynstrið var talið ofviða karlsmannshöndum. Þá verður m.a. skoðað Bayon musterið — best þekkt fyrir hin brosandi steinandlit, – svalir fílanna og holdveika konunginn. Um kvöldið verður boðið upp á danssýningu á hótelinu.
Dagur 14 — Heim á leið
Flug til Bangkok
Dagur 15 — Heim til Íslands
Skömmu eftir miðnætti er flogið í vesturátt með Thai Air og lent í Kaupmannahöfn snemma að morgni á staðartíma. Að lokum er flogið með Icelandair heim.
Athugið
- Staðfestingargjald er 50.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
- Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
- Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.