Ævintýrin gerast vart stærri en í safaríferð um Suður Afríku og til að skreyta ferðakökuna enn betur bjóðum við uppá dásamlega daga á Blómaleiðinni frá Höfðaborg til St. Lucia. Vínsmökkun og villidýr, fenjasigling og fílahjarðir, grasagarðar og framandi menning.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, flug með British Airways. Allir skattar og gjöld innifalin auk farangurs, gisting í tvíbýli með morgunmat í tilgreindum hótelum, allur akstur á milli flugvalla og gististaða eins og tilgreint er í ferðalýsingunni hér að framan, tilgreindar skoðunarferðir auk aðgangseyris, hádegisverður alla ferðadaga auk þess tveir kvöldverðir, og Íslensk fararstjórn og þjónusta erlendra leiðsögumanna.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, eða þjórfé persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt sérstaklega hér að framan.
Ferðalýsing
Fyrstu sólargeislarnir teygja sig varfærnislega upp fyrir sjóndeildarhringinn. Loftið er ennþá svalt eftir nóttina en núna vaknar sléttan til lífsins. Morgunverðurinn bíður eftir þér úti á veröndinni og á meðan þú sýpur á teinu fikra fílarnir og buffalarnir sig niður að vatnsbólunum undir vökulu auga ljónanna. Þú ert kominn til Suður-Afríku á slóðir villtu dýranna og brosmilda fólksins.
Manstu eftir laginu með Toto?
Hurry boy, she‘s waiting there for you! söng rokkbandið um Afríku.
Það voru orð að sönnu, því Afríka bíður, með öllum sínum töfrum; framandi, heillandi og engu lík. Úrval Útsýn býður upp á 17 daga reisu til Suður-Afríku í nóvember í ár og er óhætt að lofa að ferðin verður ógleymanleg.
Fyrsti kafli ferðasögunnar: HÖFÐABORG, VÍNEKRUR OG BLÓMALEIÐIN/GARDEN ROUTE
Flogið er til Höfðaborgar, með millilendingu í London. Vélin lendir á áfangastað að morgni og eftir stuttan hádegisverð er haldið af stað í síðdegisferð um þessa fallegu, sólbökuðu og sögufrægu borg.
Stefnan er sett á Góðrarvonarhöfða og kíkt á áhugaverða staði rétt utan við borgarmörkin og verður meðal annars haldið upp á topp Table Mountain, þar sem útsýnið þykir óviðjafnanlegt.
Kirstenbosch grasagarðarnir heimsóttir og þar nýtur Vilmundur fararstjóri sín sérlega vel enda fjölfræðingur þegar kemur að öllu sem þar finnst.
Stellenbosch er staður fyrir sælkerana því þar slær hjarta suður-afrískar víngerðar. Dagar víns, osta og ananrra vellystinga í þessum snotra bæ þar sem komið verður við á nokkrum vínekrum t.d. Blaauwklippen, Boschendal og Spier.
„Route 62“ eða þjóðvegur nr 62 er sögð lengsta „vínlandsleið“ í heimi en á þessari rúmlega þriggja klukkustunda akstri frá Höfðaborg til Barrydale eru fjölmargir víngarðar í fallegum dölum.
Farið er um svokallað Karoo-svæði þar sem mikill landbúnaður er stundaður t.d. með ræktun á strútum, sauðfé og fleiri skepnum og enn og aftur kemur sér vel að fararstjórinn starfaði lengi sem blaðamaður á Bændablaðinu og er vel inn í landbúnaði almennt.
Oudtshoorn er höfuðstaður strútaræktunar í heiminum. Allt í kringum bæinn eru fjölmargir strútabúgarðar í hinu gyllta og þurra landslagi Karoo. Hér má njóta léttvíns og púrtvíns frá heimamönnum; bragða á strútakjöti og þurrkuðu biltong; læra um strútsfjarðasprengjuna á C.P. Nel-safninu og heimsækja hina heimsþekktu Cango-hella; stærsta hellakerfi í Afríku með ævafornum bergmyndunum og glitrandi dropasteinum. Meðal annarra vinsælla afþreyingarmöguleika má nefna fjallahjólreiðar, svifflug, hestaferðir og dagsferðir yfir Swartberg- skarðið til forvitnilega bæjarins Prince Albert.
Tsitsikamma þjóðgarðurinn er staðsettur á hinni fallegu suður- afrísku strandlengju og þekktur fyrir villta skóga, skínandi strandlínu og stórfengleg fljót. Tsitsikamma-þjóðgarðurinn er hluti Garden Route-þjóðgarðsins og nær til hafverndarsvæðis í um 5 kílómetra út fyrir strandlengjuna og út á haf. Þar eru heimkynni fjölbreyttra dýrategunda og gróðurtegunda, þ. á m. yfir 9000 tegunda af innlendum fynbos-gróðri.
Síðasti viðkomustaður á Blómaleiðinni/Garden Route er Addo. Svæðið, sem kallast Greater Addo, nær frá hinum fagra Zuurberg-fjallgarði og að Sundays-ánni og er einkum þekkt fyrir skoðunarferðir á slóðir villtra dýra. Söguslóðir eru margar á svæðinu og fjölbreytt menning fyrirfinnst meðal sítrustrjáa, sandhóla og ríkulegs dýralífs og gróðurs. Greater Addo býr að fjölmörgum lokuðum veiðisvæðum fyrir villt dýr, sem eru heimkynni hinna „Stóru 5“ ‒ ljóna, hlébarða, nashyrninga, fíla og buffalóa. Í Addo-fílaþjóðgarðinn má finna stærstu fílahjarðir í heiminum. Ekki nóg með það, það er einungis í Addo, af öllum stöðum í heiminum, sem mögulegt er að sjá hin „stóru 7“ sem eru áðurnefnd 5 stóru landdýr auk sléttbaks og risahákarla sem finnast við ströndina.
Annar kafli ferðasögunnar DURBAN, ST. LUCIA, ZULULANDS OG SWAZILAND/iSWATINI
Eftir rúma viku á ferðalagi um Suður Afríku er Blómaleiðin kvödd og flogið frá Gqeberha, sem er bær sem áður nefndist Port Elizabeth, til Durban þar sem áð er eina nótt áður en haldið er áfram til smáþorpsins St. Lucia sem verður miðstöð hópsins næstu tvo dagana, með ferðum til Zululands, votlendisævintýri og siglingu í leit að flóðhestum og nashyrningum. Ekki má gleyma að nefna skreppitúr til Svasílandi, sem í dag nefnist eSwatini, þar sem brosmildur kóngurinn unir sér best ber að ofan, enda hefur hann laðað að sér hvorki fleiri né færri en 14 eiginkonur með krulluðum bringuhárunum.
Hluhluwe-Imfolazi þjóðgarðurinn er elsti þjóðgarður í Afríku og hefur notið verndar frá árinu 1895. Hér finnast flestir nashyrningar í heimi eða alls fimmtungur af þeim tegundum og það var í þessum þjóðgarði sem áform um enduruppbyggingu stofnanna hófst um 1960.
Siglt verður um flóasvæði St. Lucia til að komast í gott færi við krókódíla og flóðhesta auk þess sem ótrúlegur fjöldi fugla er að finna á þessu fenjasvæði.
Dvalið verður eina nótt í Svasílandi/eSwatini áður en komið verður til Kruger þjóðgarðsins. Dvalið verður í Hlane Ndlovu sem einkennist af hinu dæmigerða gresjulandslagi Afríku og hér er líka að finna ógrynni framandi dýrategunda; ljón, hlébarðar, fílar og nashyrningar auk þess sem mikill fjöldi hrægamma heldur til á svæðinu.
Þriðji kafli ferðasögunnar KRUGER-ÞJÓÐGARÐURINN
Það væri hægt að hætta ferðinni á þessum tímapunkti og hafa samt frá nógu að segja, en ævintýrið er rétt að byrja. Á síðustu þremur dögum ferðarinnar skoðum við nefnilega Kruger-þjóðgarðinn, konung allra þjóðgarða. Hér fær dýraríkið að njóta sín: silalegir fílar, tignarlegir gíraffar, sprækir sebrahestar ferðast um sléttuna undir vökulu auga ljóna og opinmynntra túrista.
Fáir þjóðgarðar geta keppt við Kruger-garðinn, sem þekur hvorki meira né minna en 20.000 ferkílómetra og teygir sig alla leið upp að landamærum bæði Zimbabwe og Mósambík. Enginn verður svikinn af að fara þar í ekta safarí, og horfa með hjartað í hálsinum á nashyrninga, hlébarða, sebrahesta, gíraffa og krókódíla í sínu náttúrulega umhverfi. Og ljónin? Þau eru sko engir Þingholtskettir.
Flogið er aftur til Íslands síðla kvölds á sextánda degi og lent í Keflavík undir hádegi næsta dag. Nema hvað við lendingu finnurðu að þú ert ekki sama manneskjan og lagði af stað í langt ferðalag fyrir tveimur vikum. Afríka hefur opnað einhverjar gáttir í sálinni og þig langar þangað aftur. Spurðu bara karlana í Toto:
It’s gonna take a lot to drag me away from you. There’s nothing that a hundred men or more could ever do. I bless the rain down in Africa…
Margir láta sig dreyma lengi um að heimskja þetta heillandi land í suðri, en allt of fáir láta drauminn rætast. Oft er það fyrsta sem kemur fólki á óvart hvað landið er stórt: í kortabókunum fer lítið fyrir Suður-Afríku en í raun er landið nær tólf sinnum stærra en Ísland, og margt að skoða.
Hótel:
Þvílík landkönnun sem þessi ferð um Suður Afríku er snýst fyrst og fremst um upplifun og stefnumót við nýja staði og framandi ævintýri. Hótelin sem valin eru í slíka ferð eru gististaðir sem veita ferðalöngum skjól, hvíld og næði. Við val á hótelum í þessa ferð var litið til staðsetningar, áreiðanleika í þjónustu og aðbúnaði en sneitt var framhjá tildri og tilgerð. Hér hafa verið valin góð hótel sem telja í 3 til 4 stjörnum og munu öll veita gott atlæti.
Suður Afríka hótel ★★★
Suður-Afríka
Óhætt er að fullyrða að Lýðveldið Suður-Afríka er heimsálfa út af fyrir sig enda þótt ríkið sé nátengt afrískum nágrannalöndum í norðri. Landið er geysi stórt eða 12 sinnum stærra en Ísland og landsmenn um 60 milljónir þar sem fjölmörg þjóðarbrot blanda saman geði. Landið liggur eftir endilangri suðurströnd Afríku, frá Atlantshafi í vestri til Indlandshafs í austri. Andstæður í náttúru og mannlífi eru miklar og forvitnilegar fyrir gesti langt að komna.
Athugið
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.