Hnitmiðuð og kjarnimikil ferð sem opnar ferðalöngum undur Angkor og sögu Kambódíu með viðkomu í Siem Reap og höfuðborginni Phnom Penh. Suður Víetnam er krufinn í yfirgripsmiklum ferðum um Saígon, árósa Mekong, hinn forna höfuðstað Hue og draumkenndan strandæinn Hoi An í Mið-Víetanam.
Rúsínan í pylsuendanum eru tveir magnaðir dagar í Bangkok þar sem leyndardómar gömlu Síam eru opnaðir auk þess að mæta hinni stálslegnu nútímaborg sem aldrei sefur.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, gisting í tvíbýli með morgunmat í tilgreindum hótelum, allur akstur á milli flugvalla og gististaða eins og tilgreint er í ferðalýsingunni hér að framan, skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt framangreindu, og þjónusta innlendra leiðsögumanna.
Ekki innifalið í verði:
Ekki "late/early check-in/out" - Innritun kl. 15:00. Útskráning 11:00, Ekki þjórfé persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt sérstaklega hér að framan, eða kostnaður við vegabréfsáritun, ferðaskilríki og afgreiðslu á landamærum.
Ferðalýsing
Kynningarfundur þriðjudaginn 16. maí kl 17:30 í húsakynnum Úrval Útýn að Hlíðasmára 19.
Ferðin hefst í Saígon, borg sem státar af einstakri blöndu af hraðri uppbyggingu og rómantískum nýlendutíma. Hún er heillandi og margslungin borg, með breiðstræti og borgarmynd sem minnir á viðveru Frakka er þeir gerðu Saígon að höfuðstað Franska-Indókína sem náði um Víetnam, Laos og Kambódíu. Görótt og fornt kínahverfi, Notre Dame-kirkjan og óperuhús hannað af Alberti Eiffel, götumarkaðir um öngstræti og urmull veitingastaða og verslana eru meðal helstu einkenna Saígon-borgar.
Við komu til Saígon er gamla borgin skoðuð. Fjölbreyttir viðkomustaðir birta ferðalöngum þverskurð einhverrar fallegustu og ævintýralegustu borgar heims og hver veit nema þið lærið að ferðast lóðrétt um borgina fremur en lárétt einsog Sigurður Guðmundsson listamaður sagði skemmtilega frá í bók sinni Dýrin í Saígon.
Næsti áfangastaður eru árósar Mekong þar sem kannaðar eru merkar menjar um stríð Norður Víetnama við Bandaríkjamenn, stríð sem við þekkjum sem Víetnamstríðið en víetnamar kalla að sjálfsögðu Amerískastríðið. Cu Chi göngin voru grafin af andspyrnuher Norður víetnama sem sátu um her Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Suður Víetnam. Göngin eru margslungin og í kringum þau er saga stríðsins og andspyrnu norðanmanna sögð á athyglisverðan hátt.
Annar merkur áfangastaður á þessari ferð um árósa Mekongfljóts eru höfuðstöðvar Cao Dai trúarsafnaðarins. Skrautlega byggingar og athyglisvert mannlíf og trúariðkun safnaðarins.
Frá Saígon er flogið til miðhluta Víetnam sem einhvern tíman var nefnt Annam og var sérstök nýlenda frakka byggð á valdasvæði Nguyen keisaraveldinu sem sameinaði það svæði sem við þekkjum sem Víetnam í dag.
Leiðangur okkar um Annam hefst í gömlu höfuðborginni Hue. Við komu til borgarinnar hefst fjölbreytt skoðunarferð um Hue sem var áður höfuðstaður keisaraættar Víetnam.
Farið verður eftir bökkum Song Hong ánni (Perfume River) í gegnum fallega garða og stöðuvötn og að grafhýsum Nguyenkeisaraættarinn. Einnig verður Thien Mu Pagóðan skoðuðu. Þaðan verður ekið að Khai Dinh og borgarvirki Nguyenkeisaraveldisins, sem réði yfir Víetnam frá 1802 til 1945. Hallarhverfið var nefnd hin Forboðna fjólubláa borg og er skemmtileg blanda af glæsileika sem bera vott um forna hirðsiði, en eins er margt svo látlaust og alþýðlegt þar.
Snæddur er hádegisverður af matseðli konunganna, en í Hue hefur varðveiðst einstök matargerð, en þó eru engir geldingar lengur til staðar til að prufa réttina til að tryggja að þeir séu óeitraðir, líkt og keisarar Víetnam gerðu til Forna.
Dvalið verður 3 nætur í gömlum bæ sem nefnist Hoí An og er draumkenndur staður. Gamall og vel varðveittur bær sem ber vitni um dvöl Japana og Kínverja sem stunduðu verslun við heimamenn í bænum. Kyrrlát stræti, fallegt handverk sem selt er í gömlum búðum og fjölbreytt úrval öndvegis matsölustaða einkennir Hoí An, en Hoí An státar ekki bara af menningu og bæjarsjarma, því þar er einnig að finna góða baðströnd.
My Son eru merkustu fornleifar eða rústir fornra bygginga í Víetnam og er oft líkt við Angkor, Borobudur á Jövu, Ayuttaya í Taílandi og Bagan í Búrma hvað umfang og mikilfengleika varðar. Á þeirra blómatíma voru byggingar My Son sambærilegar en því miður eru þessar rústir svipur hjá sjón eftir sprengjuregn það sem Bandaríkjamenn helltu yfir svæðið á einni viku í Amerískastríðinu.
My Son er heitið á því svæði sem liggur í dalverpi í um 40 km fjarlægð frá Hoi An og var frá 4 til 14 öld eftir Krist helsti vettvangur trúariðkana Champa-ríkisins sem réði yfir öllu Mið-Víetnam og stórum hluta þess svæðis sem í dag tilheyrir Laos og Kambódíu Champar voru hindúar og byggðu svokallaða Champa-turna víða í Víetnam. My Son hofin, sem reist voru guðinum Shiva til dýrðar, eru dreifð um dalinn og á mörgum turnunum eru fallegar lágmyndir, styttur o.fl.
Á sjötta degi í Víetnam verður flogið til Kambódíu. Stefnan er sett á bæinn Siem Reap sem er umkringd rústum borgar sem var höfuðstaður hins merka veldis khmera sem við nefnum Angkor. Hvar skal byrja ef lýsa á þeim undrum? Enn í dag hefur hvergi í heiminum verið reist stærri trúarleg bygging en Angkor Wat. Hofið var byggt í upphafi 12. aldar – fyrir um 900 árum. Stórkostleg er saga veldis Khmera sem stóð yfir um 600 ár og náði yfir stóran hluta af meginlandi Suðaustur-Asíu.
Hagsæld Khmeranna byggðist mikið upp á vatni með snjöllu áveitukerfi og uppistöðulínum sem gerðu mönnum kleift að rækta hrísgrjón allt árið um kring. Í þessu blómlega og öfluga ríki voru reist hof og hallir sem eiga sér enga hliðstæðu í víðri veröld. Steinlagðir vegir lágu til Taílands með ríkisgistiheimilum og sjúkrahúsum. Turnar hofanna voru gullhúðaðir eða steyptir í kopar og að hirðinni safnaðist óviðjafnanlegur auður í gulli og dýrgripum. Fjölmennt var í ríkinu og þegar hæst stóð bjuggu um ein milljón manna í Angkor-borginni, en á sama tíma voru 50.000 manns í Lundúnum. Kröftugur her varði ríkið og haslaði sér völl til stranda Víetnam, inn til fjalla Laos og vestur að landamærum Búrma um Taíland.
Bækistöð verður í bænum Siem Reap, rétt við verndarsvæði Angkor. Sá bær er mikið ævintýri út af fyrir sig, með skrautlegum næturmörkuðum, gömlum miðbæ í frönskum nýlendustíl, fjölbreyttri flóru veitingastaða og litríku næturlífi.
Við ljúkum ferðalaginu um Kambódíu með tveimur góðum dögum í höfuðborginni, Phnom Penh. Borgin hefur lengi þótt ein fallegasta borg álfunnar og var gjarnan kölluð Perla Asíu. Áralöng stríð og óáran hafa þó sett sín merki á borgina en Phnom Penh hefur dustað af sér rykið og tekið við sér af krafti. Hún er enn falleg, býr yfir merkri sögu og skemmtilegu mannlífi. Hér munum við rifja upp og skoða verksummerki um hina ótrúlegu helför kambódísku þjóðarinnar á valdatíma Rauðu Khmerana frá 1975-1998 auk þess að skoða fögur mannvirki svo sem Konungshöllina og Silfur-pagóðuna.
Síðasti viðkomustaður í þessari yfirgripsmiklu ferð um Suð-Austur Asíu er Bangkok, höfuðborg Taílands, þaðan sem flogið verður heim eftir tvær vikur í Asíu.
Bangkok er magnaður staður sem verður rúsínan í pylsuenda þessarar ferðar. Í Víetnam kynntumst við tveimur ólíkum endum í landi gerólíku Kambódíu og í Taílandi mætum við enn annari menningu og ólíku andrúmslofti frá því sem við höfum kynnst í þessari ferð. Strax við komu verður lagt í yfirgripsmikla skoðunarferð um borgina sem endar á kvöldverði. Lögð verður áhersla á að skoða bakgarða og faldar gersemar borgarinnar, fremur en að trekkja hallir og hof, reynt verður að birta fólki kjarna borgarinnar.
Á lokadegi ferðarinnar hafa ferðalangar frjálsar hendur með hvað skal gera. Verslunartækifærin eru einstök og matarmenning Bangkok óviðjafnanleg en þess utan munum við bjóða fjölda valfrjálsra ferða fyrir þá sem vilja halda áfram landkönnun og rannsóknum á eðli og ævintýrum meginlands Suð-Austur Asíu.
Flogið með Icelandair og Qatar Airways um Osló og Katar í Arabíu. Einn flugmiði alla leið svo tengingar eru tryggðar.
Gist í vönduðum og vel staðsettum 4stjörnu hótelum á hverjum stað.
LEIÐANGUR ÚRVAL ÚTSÝN UM GÖMLU INDÓKÍNA
Þessi ferð er vandlega tálguð og sniðin að því að opinbera það athyglisverðasta í Víetnam og Kambódíu. Val okkar á áfangastöðum og tilhögun allra ferða er byggð á reynslu frá fjölda undangenginna ferða síðustu ára. Áhersla er lögð á að allur viðgjörningur sé til fyrirmyndar. Hótelin eru valin af kostgæfni m.v. staðsetningu, sjarma og þjónustu. Keppst er við að finna veitingastaði sem opinbera ekki bara einstaka matargerð hvers staðar heldur einnig þá menningu sem tengist matargerðinni og því mannlífi sem hún er sprottin úr. Matseðlar eru sérvaldir því að hvert landsvæði býr yfir sínum sérkennum í mat og drykk sem ferðalangar fá að kynnast.
Kambodía Víetnam ★★★★
Athugið
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.
Flogið með Icelandair til Oslo kl. 07:50 að morgni og lent á hádegi. Fllogið áfram með Emirates frá Osló 14:10 og lent í Bangkok á hádegi næsta dag eftir stutta millilendingu í Dúbaí.
Heimflug frá Bangkok uppúr miðnætti og lent á Íslandi kl. 15:05 eftir millilendingu í Dúbaí og Osló.