Þetta ævintýri Mexíkó er krydd og gleði, skærir litir, ljúfar stundir, heillandi menning og stórbrotin náttúrufegurð.
Þín bíða dásamlegir dagar í notalegu loftslagi og stórkostlegri náttúrufegurð Yucatánskagans, í nálægð við hrífandi menningu í litríkum nýlendubæjum með spennandi mörkuðum og unaðslegum matarkúltúr.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, flug með Icelandair og WestJet. Allir skattar og gjöld innifalin auk farangurs, gisting í tvíbýli með morgunmat á tilgreindum hótelum, allur akstur milli flugvalla og gististaða eins og tilgreint er í ferðalýsingunni hér að framan, tilgreindar skoðunarferðir auk aðgangseyris, hádegisverður alla ferðadaga auk þess tveir kvöldverðir, og Íslensk fararstjórn og þjónusta erlendra leiðsögumanna.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, "late/early check-in/out" á hótelum, hádegisverður stranddagana, eða þjórfé persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt sérstaklega hér að framan.
Ferðalýsing
Þetta er ferðalag fyrir kröfuharða ferðalanga sem vilja stíga út fyrir hinn hefðbundna ramma og mæta hinu sanna Mexíkó. Menning frumbyggja landsins, hinna fornu Maya, verða gerð góð skil þegar píramídar og hof eru skoðuð og við komumst í návígi við hina lifandi menningu afkomenda Mayanna í litlum þorpum, á skrautlegum götumörkuðum og ekki síst með því að bragða á hinum margslungna og ævintýralega mat heimamanna. Einnig er þetta stefnumót við þá sögu og þá arfleifð sem nýlenduherrarnir frá Evrópu skildu eftir sig í Mexíkó, sem finnst í daglegum hefðum, mat, trúarlífi, listsköpun og tungumáli heimamanna.
Flogið er um Tórontó í Kanada með Icelandair og áfram með WestJet. Gist er eina nótt í Tórontóborg á báðum leiðum.
Fyrsti áfangastaðurinn, Valladolid, er fagur og kyrrlátur nýlendubær sem sumir segja best geymda leyndarmál Mexíkó. Þar í grennd eru margar hinna sérstöku náttúrulauga á svæðinu, sem kallast „Cenote“ eða sighellar, á íslensku. Hinir fornu Mayar náðu sambandi við „guði undirheimanna“ í þessum laugum og því er vissulega guðdómlegt að fá tækifæri til að synda í svalandi og kristaltæru vatninu.
Lögð er áhersla á að kynnast bænum vel auk þess að fara í ferðir um nágrennið. Í Valladolid hreyfist tíminn hægt, fólk stígur reiðhjólin rólega um götur bæjarins, krakkarnir lepja „elote helado“ sem er rjómaís með maísbaunum á meðan hinir fullorðnu sitja lengi á bekkjum við torgin eða inná veitingastöðum með mexcaldrykk eða maísbjór. Þarna finnast engar erlendar hótelkeðjur og engir úbertaxar og fæstir heimamenn tala ensku. Veitingastaðirnir eru engir túristastaðir heldur samkomustaðir heimamanna en allir eru velkomnir þangað og bleiknefjum frá hinum vestræna heimi er fagnað með feimnu brosi og frábærum veitingum.
Á öðrum degi í Valladolid verður farið snemma morguns að hinum stórmerku menjum Chichén Itzá en svo nefnist svæðið þar sem einhver fallegasti pýramídi Mayanna finnst auk ýmissa bygginga sem gegndu fjölbreyttu hlutverki á þeim 1000 árum sem svæðið var í byggð.
Eftir tvo yndislega daga í Valladolid verður haldið til hinnar fornu borgar Uxmal þar sem gist verður á hóteli í miðjum frumskóginum. Skoðaðar verða hinar stórmerkilegu fornminjar og hægt að skella sér í gufubað að hætti heimamanna er nefnist Temazcal, sem hreinsar bæði sál og líkama.
Eftir ævintýri í frumskóginum liggur leiðin til hinnar alræmdu sjóræningjaborgar, Campeche, sem hefur að geyma einn af fallegustu miðbæjum Mexíkó. Þar gefst nægur tími til að kynnast bæði sögu og menningu borgarinnar í afslöppuðu andrúmslofti með ferskan andvara af hafinu.
Næsti áningastaður er Mérida, höfuðborg Yucatán, þar sem líta má einn stærsta kjarna sögulegra bygginga í Rómönsku-Ameríku, með tignarlegum húsum frá nýlendutíma Spánverja. Mérida er þó meira en fallegar byggingar, því hún er ein helsta menningarborg Mexíkó, þar sem tónlist og dans er að finna hvarvetna á torgum, ásamt mörkuðum, galleríum, leikhúsum, tónlistarhúsum og virkilega góðum veitingastöðum. Auk þess að kynnast Mérida verður farið í stuttar ferðir til nálægra staða.
Eftir allt þetta ferðalag er kjörið að halda til strandar og njóta síðustu tveggja nátta ferðarinnar í karabíska strandbænum Playa del Carmen. Fyrst hér rekumst við á hefðbundinn túrisma í Mexíkó eftir viku ferðalag um landið. Hér er margt í boði s.s. að snorkla innan um kóralrif eða fara í golf rétt við strandlengjuna. Sumir velja frekar að slappa af á ströndinni eða rölta hina víðfrægu göngugötu, Fimmta strætið (Quinta Avenida), þar sem hundruð verslana, veitingastaða, kráa og kaffihúsa bjóða hvað eina sem hugurinn girnist. Hvert sem valið er verður lendingin mjúk í Playa del Carmen, áður en haldið er aftur heimleiðis.
Gistingar í boði
Cancún Windham Downtown ****
Vel staðsett hótel í um 15 mín akstri frá flugvellinum. Rúmgóð herbergi með góðum rúmum. Kjörið hótel til að hvílast eftir flugið og áður en lagt er af stað í leiðangurinn.
Valladolid
Hotel Meson de Marqués ****
Meson de Marqués er eitt virtasta hótelið í Valladolid og án efa best staðsett.
Byggingí nýlendustíl með stórkostlegri þakverönd þar sem hægt er að njóta útsýnis yfir miðbæinn meðan snæddur er kvöldverður á veitingastað hótelsins eða annara veitinga í þægilegu andrúmslofti.
Uxmal
Uxmal Resort Maya ***
Uxmal Resort Maya er vinalegt og þægilegt hótel í miðjum frumskógi Yucatánskagans 1 km frá hinni fornu borg Uxmal. Hótelið er kjörin áningastaður eftir góðan dagsrúnt um sveitirnar þar sem boðið er upp á sauna að hætti heimamanna eða nudd. Hótelið er státar af virkilega fallegu útsýni yfir skóginn og sést í byggingar fornu borgarinnar frá efri hæðum hótelsins.
Campeche
Gamma Campeche Hotel ****
Gamma hótelið er staðsett á besta stað í þessari gömlu sjóræningjaborg, eða rétt við aðal inngang hinna gömlu borgarmúra. Hér eru herbergin rúmgóð og þægileg með einstöku útsýni yfir sjávarsíðuna þaðan sem afbragð er að fylgjast með sólsetrinu.
Frá hótelinu tekur aðeins 2 mínútur að ganga inn í gamla miðbæ Campeche.
Mérida
Palacio Maya ***
Vel staðsett hótel með einstaklega rúmgóðum herbergjum með svölum með útsýni yfir fallegum garði. Magnað útsýni frá þakverönd hótelsins. Nálægt hótelinu er mikið af frábærum veitingastöðum, börum með lifandi tónlist og fallegum litlum torgum til að fylgjast með mannlífinu.
Playa del Carmen
Grand Fifty ***
Vel staðsett hótel með fallegum og rúmgóðum herbergjum. Fallegt útsýni yfir sjávarsíðuna af efstu hæð hótelsins, með sundlaug og aðstöðu til að njóta sín í sólinni. Hótelið er við hinn rólega enda göngugötunnar. Margir góðir og fjölbreyttir veitingastaðir í nágrenni. Ströndin er í um 5 mínútna göngufjarlægð.
Athugið
Ef lágmarksþátttaka næst ekki áskilur Úrval Útsýn sér rétt til að fella niður ferðina.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.