Vatnaperlur Ítalíu. Dvalið verður í 7 nætur á Hotel Simplon í hinum fallega bæ Baveno við strendur Maggiorevatns. Bærinn Baveno á sér mjög langa sögu en fornleifafundir þar bera vitni um mörg þúsund ára sögu, allt frá forsögulegum tíma sem og tímum Rómaveldis. Upprunalega voru mörg smáþorp á svæðinu sem nú tilheyra öll bænum Baveno. Þau eru; Feriolo, Romanico, Oltrefiume, Roncaro og Loita. Hvert þeirra hefur sinn sjarma og sína siði og eru þau tengd saman með litlum stígum sem gaman er að ganga eftir.
Innifalið í verði:
Beint flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, 7 nætur á Hotel Simplon 4★ með morgunverði, íslensk fararstjórn, akstur til og frá flugvelli, og 3 heilsdagsskoðunarferðir ásamt siglingum með íslenskri fararstjórn.
Ekki innifalið í verði:
Þjórfé, gistináttaskattur (city tax), eða aðrar máltíðir en morgunverður.
Ferðalýsing
Þar sem Alparnir teygja sig suður til Ítalíu kúra ítölsku vötnin í allri sinni dýrð milli fjallanna og fegurðin er engu lík. Sum vatnanna eru stór, önnur minni, sum tilheyra alfarið Ítalíu en önnur eiga að auki landamæri að Sviss. Ítölsku vötnin hafa haft mikið aðdráttarafl hjá ferðamönnum og má segja að þau séu meðal vinsælustu ferðamannastaða landsins. Ítölsku vötnin eru paradís fyrir göngu-, hjólreiða- og útivistarfólk með endalausum útivistarmöguleikum í gríðarlega fallegri náttúru. Þekktustu vötnin eru Lago di Garda, Lago di Como, Lago Maggiore, Lago di Lugano og Lago d‘Iseo. Í þessari ferð munum við kynnast þremur þessara vatna og skoða okkur um í fögru umhverfi þeirra, en þau eru Lago Maggiore, Lago d’Orta og síðast en ekki síst Lago di Como.
Dagskrá
Dagur 1, sunnudagur, 2. júlí 2023
Brottför frá Keflavíkurflugvelli kl.06:30 að morgni, beint flug með ítalska flugfélaginu Neos, flugnúmer NO7952.
Lending í Veróna er kl.12:30 að staðartíma.
Rúta flytur hópinn á Hotel Simplon sem staðsett er í bænum Baveno við Lake Maggiore. Aksturinn frá Veróna flugvelli tekur um það bil tvær og hálfar klukkustundir.
Frjáls tími það sem eftir er dags.
Dagur 2, mánudagur, 3. júlí 2023 — Stresa og Borromean eyjurnar
Heilsdagsferð.
Í dag förum við í bátsferð til Borromean-eyja og er fyrsti viðkomustaðurinn á Isola Bella sem einkennist af íburðarmikilli barokkhöll og gróskumiklum garði í ítölskum stíl, skreyttum með tjörnum, gosbrunnum og fjölda stytta frá seinni hluta 17.aldar.
Hvítir páfuglar sem rölta um garðinn ljá honum ævintýrablæ. Áfram höldum við á bátnum og förum næst til eyjunnar Isola dei Pescatori sem eitt sinn var fiskimannaeyja og var einmitt uppáhaldseyja Hemingways.
Tími gefst til þess að skoða þröng húsasund og rómantískar kirkjur á eigin vegum áður en haldið er aftur til meginlandsins. Þá tekur við létt skoðunarferð um bæinn Stresa en í þeim bæ standa mörg glæsileg lúxushús og villur við vatnsbakkann og er tilvalið að rölta meðfram bakkanum í friðsælum göngutúr.
Að skoðunarferðinni lokinni gefst tími til þess að skoða sig um áður en haldið verður tilbaka til Baveno. Þeir sem vilja verða eftir í Stresa og njóta kvöldsins þar, geta auðveldlega gert það og tekið leigubíl tilbaka á Hotel Simplon en aðeins erum um 5 mínútna leigubílaferð milli bæjanna tveggja.
Dagur 3, þriðjudagur, 4. júlí 2023
Frjáls dagur.
Dagur 4, miðvikudagur, 5. júlí 2023 — Stöðuvatnið Orta og eyja San Giulio
Heilsdagsferð.
Ortavatnið er falinn gimsteinn í Piedmonte héraði en það er minnsta vatnið af vötnunum framan Alpafjallanna.
Við byrjum á því að skoða þorpið Orta, heillandi lítið þorp með þröngum miðaldasundum og gömlu markaðstorgi. Eftir það verður stutt bátsferð yfir í eyjuna San Giulio þar sem við heimsækjum elstu kirkju þessa svæðis en þar má m.a. sjá dýrmætar freskur frá endurreisnartímabilinu. Hvert sem litið er má sjá fallegar steinilagðar götur, gömul falleg hús með blómum skreyttum svölum og flagnandi gluggahlerum, hlykkjóttar götur og falleg húsasund. Aðaltorgið, Piazza Motta, er við litlu smábátahöfnina og þar má finna fjölda ísbúða, veitingastaða, sérvöruverslana og kaffihúsa.
Sjarmerandi umhverfi sem er eins og klippt út úr kvikmynd, slík er fegurðin.
Dagur 5, fimmtudagur, 6. júlí 2023
Frjáls dagur.
Dagur 6, föstudagur, 7. júlí 2023 — Comovatnið
Heilsdagsferð.
Í dag förum við að Comovatni en þar hafa margar stjörnur heims keypt sér hús til að njóta ítölsku dýrðarinnar eins og best verður á kosið. Lagt er af stað kl.08:30 frá hótelinu og keyrt sem leið liggur til Tremezzo (2,5 klst).
Þar tökum við ferju og siglum á Comovatni yfir til Bellagio, en Bellagio er talinn einn sá glæsilegasti og rómantískasti áfangastaður í Lombardyhéraðinu. Hér er allt í göngufæri og verður frjáls tími til að skoða sig um og fá sér hádegisverð.
Eftir það tökum við ferjuna aftur tilbaka til Tremezzo og keyrum þaðan til bæjarins Como, sem vatnið dregur nafn sitt af. Þar fáum við leiðsögn um bæinn og njótum fegurðarinnar.
Áætluð koma tilbaka á hótelið er um kl.18:00
Dagur 7, laugardagur, 8. júlí 2023
Frjáls dagur.
Dagur 8, sunnudagur, 9. júlí 2023
Beint flug með Neos frá Veróna kl.13:30, lending í Keflavík er kl.15:50 að íslenskum tíma.
Hotel Simplon ★★★★
Hótel Simplon er fallegt 4 stjörnu hótel í glæsilegri byggingu staðsett í aldagömlum garði við strendur Maggiore vatnsins í bænum Baveno. Bleik framhliðin minnir á lit hins dæmigerða rósagranítsteins sem unninn er í námum Baveno.
Á hótelinu er bæði inni- og útisundlaug, sólarhringsmótttaka, herbergisþjónusta, setustofa og heilsulind ásamt tveimur veitingastöðum, bar og verönd þar sem hægt er að njóta þess að borða úti. Einnig er tennisvöllur á svæðinu.
Herbergin eru fallega innréttuð með viðargólfi og loftkælingu. Ýmist er fögur fjallasýn eða útsýni að garði og vatninu í hverju herbergi og á baðhergjum má finna baðvörur og hárþurrku. Flatskjásjónvörp bjóða upp á kapalrásir.
Verona
Margir tengja Verona helst við hina óborganlegu sögu af forboðinni ást Rómeó og Júlíu úr smiðju Shakespears og linna ekki látum fyrr en þeir standa við svalirnar þar sem hið ástfangna par kallaðist á. Ekki amaleg tenging þar en Verona býður nú til dags upp á ótalmargt fleira með fjölda skemmtilegra torga, margsnúnar og sniðugar götur, aragrúa stórra og smárra verslana og enn fleiri matstaði og kaffihús. Sagan liggur í hverju skoti en fremst í flokki fer hið stóra rómverska hringleikahús sem varðveist hefur ótrúlega vel í tæp 2000 ár. Þar eru enn sett á svið leikrit og ótal tónleikar. Til viðbótar má nefna fjölmargar kirkjur með ólíkum stílbrögðum og upplagi, magnaðar brýr yfir borgarfljótið Adige, listasöfn og gallerí, gæðavín á hverju strái og ítalska eldhúsið í öndvegi.
Hvað er að sjá?
Verona státar af fjölda skemmtilegra og áhugaverðra staða. Listinn gæti litið svona út:
Versur romae, vae romae
Fyrst skal telja rómverska leikhúsið sem haldið hefur svip sínum um aldir. Stór jarðskjálfti á 12. öld hreyfði vart við húsinu enda er hluti þess byggður úr fyrsta flokks bleiklituðum marmara. Hér er pláss fyrir um 30.000 áhorfendur og hér eru haldnir tónleikar árið um kring.
Giardino giusti
Handan Adige-fljóts er gullfallegur garður sem talinn er einn af gimsteinum Endurreisnarinnar. Garðurinn er nefndur í höfuðið á aðalsættinni sem annast hefur reitinn frá stofnun árið 1591. Þótt garðurinn sé blómlegri yfir sumarmánuðina svífur þar magnaður andi yfir vetrartíma og allan ársins hring er hann athvarf elskenda.
Gamli bærinn
Gamli bærinn er mjög skemmtilegur með þröngum götum og ítalskri matargerð eins og hún gerist best, einna helst líkt og maður detti inn í ítalska bíómynd. Marmara göngugatan Via Mazzini liggur í gegnum hjarta bæjarins að Piazza Erbe torginu sem er gríðarlega fallegt.
Shakespeare
Borgin var mikil hvatning fyrir Shakespeare og notaði hann Verona sem leiksvið í þremur leikritum; Rómeó og Júlíu, Skassið tamið, og Tveir herramenn frá Verona. Hinar sögufrægu svalir þar sem Júlía stóð og hlustaði á ástarjátningar Rómeós er vinsæll skoðunarstaður.
Museo Di Castelvecchio
Þetta einstaka safn geymir fjölda muna og minja frá rómverskum tíma, miðöldum og endurreisninni, auk nýlegri listmuna, í 28 sýningarrýmum. Húsnæðið er sér kapítuli út af fyrir sig. Það var reist sem virkisborg um miðja 14. öld ofan á rómverskum rústum og kirkju sem að hluta til má skoða innandyra.
Galleria D’Arte Moderna Achille Forti
Þetta listasafn geymir mörg djásn frá tímabilinu 1840-1940 með áherslu á málverk og höggmyndir.
Torre Deil Lamberti
Torre dei Lamberti er 84 m hár varðturn sem byggður var á löngu tímabili á 13.-15. öld, mest til að hafa fyrirvara á innrásum frá Feneyingum. Frá turninum er frábært útsýni yfir borgina og nágrenni hennar.
Piazza Dei Signiori
Umhverfis þetta aðaltorg Verona eru raðir af tignarlegum gömlum byggingum. Fyrst skal nefna Palazzo degli Scaligeri frá 14. öld. Þar bjó Cangrande I Dekla Scala, sá er reisti virkisborgina sem fyrr en nefnd. Loggia el Consiglio var reist á 16. öld sem eins konar ráðhús borgarinnar, og Palazzo della Ragione var upphaflega byggt sem bústaður en hefur gegnt mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Á miðju togirnu er hin fræga stytta af skáldinu Dante sem fékk athvarf í Verona eftir útlegðardóm í Flórens.
Flóamarkaðurinn
Loks skal nefna flóamarkaðinn á Piazza San Zeno sem er opinn flesta sunnudaga árið um kring. Þar er að finna mikið úrval antíkmuna, allskyns apparöt og og flíkur.
Verona er alltaf vinaleg heim að sækja og enginn snýr svikinn heim.
Athugið
Staðfestingargjald er 80.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.