Dragðu djúpt að þér andann áður en þú mætir Víetnam. Þín bíður mögnuð upplifun og framandi ævintýri í landi sem sameinar exótík og unað Asíu á einstakan hátt. Strax og komið er til Víetnam vakna upp minningar úr bókum og kvikmyndum um fjarlæga asíska staði. Trjónusniðnir basthattar, þokkafullir silksíðkjólar, mannmergðin og ös hjóla og bíla á götunum, framandi matarlykt og margslunginn hljómur umhverfisins.
Við förum frá nyrsta enda landsins um Hanoi og Ninh Binh í Norður-Víetnam, um helstu staði Mið-Víetnam, hina fornu höfuðborg Hue og gömlu verslunarstöðina við Hoi An sem er ótrúlega vel varðveittur bær þar sem kínverjar og japanir versluðu við heimamenn. Síðasti kaflinn er svo Suður-Víetnam með hina heillandi borg Saígon og árósar Mekongfljótsins.
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, íslensk fararstjórn, Flug með Emirates og Icelandair. Skattar, gjöld og farangur innifalinn (30 kg innritað auk handfarangurs), morgunmatur á tilgreindum hótelum/gististöðum, allur akstur á milli flugvalla og gististaða einsog tilgreint er í ferðalýsingunni, aðstöð og leiðsögn innlenda sérhæfðra aðila, allar tilgreindar ferðir með aðgangseyri, akstri og öðru tilheyrandi, og 9 hádegisverðir og 6 kvöldverðir.
Ekki innifalið í verði:
Kostnaður við vegabréfsáritanir eða afgreiðslu á landamærum, eða þjórfé, persónuleg útgjöld og annað það sem ekki er nefnt hér að framan.
Ferðalýsing
Víetnam er meira en Víetnamstríðið. Stálslegið af dugnaði og hörku, fínofið sem silki í menningu og handverki, óbugað af erlendum drottnurum og árásum. Hvorki kínverjar, frakkar né bandaríkjamenn gátu beygt þessa þjóð undir sitt vald. Þessi langa afmarkaða sneið af Indókínaskaganum er svo ólík nágrönnunum Laos og Kambódíu. Í dag er það fráleit hugsun að þeir hafi verið settir undir sama hattinn í tilraun nýlenduherranna sem eitt af þremur löndum Franska-Indókína.
Líkt og landið er í laginu mjótt, beint og upprétt, eins er þjóðin. Harðgerð og stolt, vinnusöm og heiðarleg. 1600 km frá hæglátu og svölu norðrinu með höfuðborgina Hanoi til óseyra Mekong-fljóts við Saígon-borg. Miðja vegu á milli þessara frægu borga Hanoi og Saígon stendur hin forna höfuðborg Hue þar sem konungar hins sjálfstæða Víetnam sátu með hirð sinni í hundruði ára.
Langar krítarhvítar strendur með grænbláum sjó og kóralrifum, trópísk fjöll með villtri ósnortinni náttúru og afskekktum byggðum fjallafólks, fornfrægar borgir og söguslóðir. Allt þetta dregur ævintýraþyrsta ferðamenn í milljónavís til Víetnam á hverju ári.
Víetnam er heillandi land með langa og mikla sögu. Eftir löng yfirráð Kínverja tóku við 900 ár sjálfstæðis og vaxtar en með yfirgangi evrópskra nýlenduherra lögðu Frakkar undir sig landið og héldu þjóðinni undir hæl sínum fram að síðari heimstyrjöldinni þegar stutt og ólánsamt tímabil bandarískrar íhlutunar tók við. Einungis Kína getur státað af lengri og samfelldri sögu en Víetnamar í suður og austur Asíu. Víetnam lýtur engum herrum í dag og þjóðin er nokkuð sameinuð í stolti yfir Ho Chi Minh frænda, frelsishetju þjóðarinnar.
Matargerð Víetnama er lýsandi fyrir þjóðina. Í staðinn fyrir kraumandi karrí og krassandi chíllíkræsingar Taílands eða sæta matargerð Kínverja líkist víetnamskur matur kannski fremur japönskum mat? Sameiginlegt með þessum tveimur þjóðum er tærleikinn og einföld framsetning hrámetis. Víetnamskar vorrúllur eru yfirleitt bornar fram hráar svo að dæmi séu tekin. Framreiðsla margra hefðbundinna víetnamskra rétta er þannig að grænmeti og kjötmeti er borið fram sér og síðan raðar hver og einn sínu uppáhaldshráefni á ætan hrísgrjónapappír og kryddar með fjölbreyttum sósum. Pho-súpansem er alls staðar í boði er einnig gott dæmi um víetnamska matarhefð. Grunnurinn er látlaust nautakjötsoð og svo bætir hver og einn því grænmeti og kryddum sem honum líkar til að fullkomna eigin súpu.
Í dag gætir franskra áhrifa helst í arkítektúr og matargerð. Víða eru góð bakarí og vönduð frönsk vín eru einnig fáanleg í borgunum. Götusalar selja baguette-brauð með krassandi asísku áleggi og framandi sósum og þegar hin vestræna tunga hefur vanist þessari sérkennilegu samsetningu verður þetta uppáhald margra ferðamanna.
Tonkin, Annam og Cohinchina Við kjósum að nefna Norður- Mið- og Suður-Víetnam þeim fornu nöfnum sem prýddu þessi svæði þegar þau nutu ákveðins sjálfstæðis fyrr á öldum. Köflunum í þessari stóru ferðasögu er því skipt upp í Tonkin, Annam og Cochinchina. Tonkin var Norður-Víetnam og enn lifir það heiti í Tonkin- flóanum austur af Hanoí. Nafnið Annam einkennir Mið- Víetnam og var á öldum áður notað sem heiti yfir allt Víetnam og Víetnamar voru þekktir sem annamítar. Syðst er svo Cochinchina sem er það landsvæði sem einkennist mikið af árósum Mekongfljóts.
Tonkin
Fyrsti viðkomustaður er Hanoí, höfuðborg Víetnam, sem er spennandi og sögufræg borg þar sem ferðast er um í riksjóv- hjólum um miðaldarhverfi borgarinnar sem lítið hefur breyst í áranna rás. Matarmenningu Hanoí verða gerð góð skil enda víetnamskur matur einstaklega bragðgóður. Þá má ekki gleyma því að víetnamskt kaffi er í sérflokki og ómissandi hluti af hverri heimsókn til Hanoí er að bragða hið fræga eggjakaffi!
Stefnan er næst sett á Ninh Binh suður af Hanoí þar sem þriggja daga vist bíður ferðalanga. Ninh Binh svæðið er sagt einn fallegasti staður á plánetunni Jörð. Tignarlegir kalksteinsklettar rísa upp úr iðagrænum dölum þar sem ár og vötn eru umvafin hrísgrjónaekrum. Ninh Binh og sérstaklega búddískt klettaklaustur sem þótti hentugt sem bardagavirki var mikilvæg vígstöð í baráttu frakka við heimamenn í lok 19. aldar og flettist saga og staða Ninh Binh iðurlega við sögu hinna fornu konungsfjölskyldu Víetnam og sjálfstæðisbaráttu landsins.
Annam
Flogið er frá Hanoí til Hue í Mið-Víetnam. Hue er hin forna höfuðborg landins þar sem Nguyen konungsfjölskyldan hélt sína hirð og fallnir keisarar eru grafnir. Þarna verða forn grafhýsi konunganna skoðuð en hver konungur eyddi stórum hluta síns ferils í að reisa sjálfum sér verðugt grafhýsi þar sem vel færi um anda hans í framhaldslífinu. Við skoðum hin forboðnu fjólubláu borg sem var höll konungsfjölskyldunnar. Hallarbyggingar og garðarnir innan varnarmúranna eru í sífelldri og metnaðarfullri endurnýjun og endurbyggingu. Heillandi svæði sem segir mikla sögu en það var ekki fyrr en 1945 sem síðasti keisarinn sagði af sér völdum. Bảo Đại hafði þá ríkt frá 1926 og eftir að hafa afsalað sér öllum völdum og titlum lést hann í París árið 1955 þar sem hann hafði reyndar eytt mest af sinni ævi.
Frá Hue er ekið til Hoí An sem er draumkenndur staður, gamall og vel varðveittur bær sem ber vitni um dvöl japana og kínverja sem stunduðu verslun við heimamenn í bænum. Kyrrlát stræti, fallegt handverk sem selt er í gömlum búðum og fjölbreytt úrval öndvegis matsölustaða einkennir Hoí An. Bærinn státar þó ekki bara af menningu og bæjarsjarma því að þar er einnig að finna góða baðströnd. Dvalið er á hóteli í gamla bænum þaðan sem farið er í stuttar gönguferðir um bæinn. Auk þess verður ferðast til My Son sem er fyrrum höfuðstaður Champa en það var þjóðflokkur sem í upphafi síðasta árþúsunds réði öllu á þessum slóðum.
Cochinchina
Lokakafli þessarar ferðar er Suður Víetnam þar sem farið er um árósa Mekong og Saígon eða Ho Chi Minh City eins og hún kallast í dag eftir að Norður-Víetnam sigraði Suður- Víetnam í svokölluðu Víetnamstríði á síðari hluta aldarinnar sem leið. Saígon er borg sem státar af einstakri blöndu hraðrar uppbyggingar og rómantísks nýlendutíma. Hún er heillandi og margslungin borg með breiðstræti og borgarmynd sem minnir á viðveru Frakka er þeir gerðu Saígon að höfuðstað Franska-Indókína sem náði um Víetnam, Laos og Kambódíu. Görótt og fornt kínahverfi Notre Dame-kirkjan og óperuhús hannað af Albert Eiffel, götumarkaðir um öngstræti og urmull veitingastaða og verslana eru meðal helstu einkenna Saígon-borgar. Borgin verður kynnt ferðalöngum með skemmtilegum ferðum um bæinn auk þess sem haldið verður út á svæði sem kennt er við árósa Mekong þar sem Cu Chi-göngin og dómkirkja Cao Daí sértrúarsafnaðarins er að finna.
Cu Chi-göngin voru grafin af hermönnum Víet Cong þegar þeir sátu um Saígonborg. Þetta eru stórmerkilegt net neðanjarðarganga sem gerð voru af Viet Cong meðan þeir börðust fyrir sjálfstæði við heri Suður Víetnam og Ameríkana.
Göngin nýttu hermennirnir sér til að komast óséðir um víðfemt svæði, en auk þess voru þarna hýbýli þeirra, fundarstaðir, sjúkraskýli o.fl. Það er fullyrt að göngin hafi verið veigamikill þáttur í endanlegum sigri Norður Víetnama og uppgjöf og flótta Ameríkana frá Víetnam.
Síðasti áfangi ferðarinnar er um árósa Mekong sem er vagga menningar á svæðinu. Þarna var það sem Khmerar komu menningu sinni á legg sem síðar varð fræg í Angkor. Þarna er blómlegur landbúnaður í bland við fiskeldi og fiskveiðar, nútíma stóriðnaður skammt frá þorpum sem státa af handverki sem haldist hefur óbreyttur í aldaraðir. Fögur náttúra og fjölbreytt menning.
LEIÐANGUR ÚRVAL ÚTSÝN UM VÍETNAM
Þessi ferð er vandlega tálguð og sniðin að því að opinbera það athyglisverðasta í Víetnam. Val okkar á áfangastöðum og tilhögun allra ferða er byggð á reynslu frá fjölda undangenginna ferða síðustu ára. Áhersla er lögð á að allur viðgjörningur sé til fyrirmyndar. Hótelin eru valin af kostgæfni m.v. staðsetningu, sjarma og þjónustu. Keppst er við að finna veitingastaði sem opinbera ekki bara einstaka matargerð hvers staðar heldur einnig þá menningu sem tengist matargerðinni og því mannlífi sem hún er sprottin úr. Matseðlar eru sérvaldir því að hvert landsvæði býr yfir sínum sérkennum í mat og drykk sem ferðalangar fá að kynnast.
Þegar flogið er um 7 tímabelti austur um hálfan hnött í langflugum er mikilvægt að velja sem besta flugleið og flugfélög. Við kjósum að fljúga með Icelandair og Emirates flugfélaginu sem er talið eitt allra best flugfélag í heimi.
Farið er um Osló og Dúbaí á leiðinni til Hanoí. Lagt af stað að morgni fimmtudagsins 9. Janúar eða kl 07:50. Eftir stutt stopp í Osló er flogið kl. 14:00 áfram austur og lent í hádeginu næsta dag í Hanoí eftir millilendingu í Dúbaí.
Heimflugið er frá Saígon undir miðnætti föstudagsins 24. janúar kl 23:55 þegar flogið er till Dúbaí og svo áfram til Glasgow þar sem lent verður 11:35. Lokaleggurinn er flug til Keflavíkur 12:35 og lent 15:00 laugardaginn 25. janúar.
Flugin eru á einum flugmiða svo tengingar eru á ábyrgð Emirates og hægt er að innrita farangur alla leið. Leyfður er 30kg farangur auk handfarangurs.
Hafið samband við asiuferdir@uu.is ef þið óskið eftir nánari upplýsingum.
Athugið
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.