Jólamarkaðir
Jólaandinn blandaður skoskri arfleifð er einstök blanda. Jólamarkaðir Glasgow-borgar standa frábærlega undir nafni og má nefna þá tvo sem fremst standa. Annar er á einu helsta torgi borgarinnar, George Square. Hann er með alþjóðlegu ívafi því þangað sækja margir erlendir handverks- og listamenn en heimamenn hafa þó vinninginn. Yfir öllu gnæfir 15 m hátt jólatré sem skartar miklu ljósasjóvi og jólasveinar eru á hverju strái. Hinn markaðurinn er á St. Enoch torginu og þar ber meira á matvöru og dýrum veigum af öllu tagi og þar er fjörið og hvers kyns skemmtan oftast í hávegu haft.
Menning og listir
Í Glasgow blómstrar menning og listir og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þar má finna úrval listasafna og framsæknir listaháskólar hafa hreiðrað um sig í borginni, vaxið og dafnað. Í borginni er hægt að heimsækja alþjóðleg söfn, lítil gallerí líkt og hið glæsilega Kelvingrove Art Gallery and Museum og hið skemmtilega Riverside Museum. Þeir sem eru áhugasamir um sögu Glasgow geta heimsótt The Tenement House þar sem þeir geta fræðst um lifnaðarhætti og aðstæður hins almenna borgara í Glasgow á 20. öld. Húsinu hefur verið haldið vel við og er sérstök upplifun að sjá með eigin augum.
Matur og „pöbbinn“
Í Glasgow eru fjölmargar krár/pöbbar og skemmtilegum veitingahúsum, t.a.m. Two Fat Ladies and the Buttery, sem hegur fengið viðurkenningu sem afburðar veitingarstaður, og Red Onion sem líka er þekktur fyrir frábæran mat. Ein af frægustu krám Glasgow er „The Horse Shoe bar“ en þar er yfirleitt mikið líf og fjör. Þeir hugrökkustu ættu svo að smakka Haggis sem er þjóðarréttur Skota og svipar til okkar íslenska sláturs. Heimamenn segja gjarnan að annað hvort elskarðu eða hatar þennan rétt, sem ekki allir leggja í að smakka. Þeir sem ekki leggja í Haggis þurfa ekki að örvænta, það er líka hægt að fá Haggis snakk!
Áhugaverðir veitingastaðir í Glasgow
- Blackhouse The Grill on the Corner 21 -25 Bothwell Street
- Chaophraya Buchanan Street
- KamaSutra 331 Sauchiell Street
- Prezzo er á nokkrum stöðum í borginni
- Zizzi 48 Buchanan Street og 31 Royal Exchange Square
- All Bar One 56 -72 St Vincent St
Verslun í Glasgow
Glasgow hefur lengi verið vinsæll áfangastaður kaupahéðna, enda gott úrval á afar hagstæðu verði. Hægt er að njóta þess að rölta um verslunargöturnar Buchanan Street, Scuchiehall eða Argyle Street. Fyrir þá sem kjósa frekar að njóta verslana innandyra þá er tilvalið að heimsækja verslunarmiðstöðvarnar Buchanan Galleries, St. Enoch Centre eða Prince‘s Square.