Ferðalýsing
Egyptaland er einstakt í sinni röð sem fóstrað hefur háþróuð menningarríki síðustu 4.500 ár. Lífæð landsins hefur alla tíð verið stórfljótið Níl og á bökkum þess getur að líta stórkostlegar minjar um horfnar menningarþjóðir sem réðu yfir ótrúlegu verkviti og sýndu trúarhita sinn og ótakmarkaða lotningu fyrir sínum háu herrum í gegnum stórfengleg musteri og listaverk.
Í þessari ferð byrjum við á að skoða píramídana miklu í Giza og fleiri gersemar í Kairó, fljúgum síðan upp með Níl til Aswan, siglum með fljótaskipi niður Níl, dveljum í Luxor á lúxushóteli við strönd Rauðahafsins í Hurghada og klárum Cairo-heimsókn okkar áður en við fljúgum heim. Hvarvetna verður dvalið á góðum hótelum og víðast er innifalið fullt fæði og allar skoðunarferðir. Okkar sérfróði fararstjóri Kristján Steinsson sem heldur vel utan um hópinn ásamt innfæddum enskumælandi leiðsögumanni.
Hótelin
Ferðatilhögun
Dagur 1, laugardagur, 4. september 2021
Flug með Lufthansa frá Keflavík kl 14:15-19:50 til Frankfurt og framhaldsflug kl 22:15-02:25 til Kairó. Á flugvelli verður gefin út áritun inn í Egyptaland sem kostar í kringum 25 USD og þarf að greiðast með reiðufé. Vegabréf þurfa að hafa gildistíma 6 mánuði fram yfir áætlaðan heimfarardag. Frá flugvelli verður haldið til Steigenberg Cairo Pyramids Hotel.
Dagur 2, sunnudagur, 5. september 2021
Ferð dagsins hefst á hádegi eða kl 12:00. Í dag skoðum við Giza píramídana – eins sjö undra fornaldar og þess eina sem enn stendur. Giza píramídarnir eru í raun þyrping nokkurra píramída og annarra bygginga sem eru taldar byggðar um 2.400 árum f. Kr. Helstu minjarnar eru þrír stórir og sex litlir píramídar, hinn mikli Sphinx og Grafar-hofið. Stærsti píramídinn og sá elsti er 147 metra hár, í honum eru 2,3 milljónir tilhöggnir steinar og bygging hans tók um 20 ár. Sphinx, ljónið með mannshöfuðið, er ein stærsta stytta heims og höggvin út í kalkklöpp. Grafarhofið var m.a. notað til að breyta búkum genginna konunga í múmíur.
Ferðin heldur síðan áfram að Sakkara píramídanum sem er talinn vera elsta stór-framkvæmd forn-Egypta og var byggður á tíma Djesre konungs um 2.700 árum f. Kr. Píramídinn er tröppulaga með sex lögum hvert ofan á öðru og er um 62 metra hár. Skoðunarferðin endar svo með kvöldverði á veitingastað í Kairó. Eftir kvöldverðinn verður haldið heim á hótel Steigenberger Cairo Pyramids.
- Innifalið: Morgunverður og kvöldverður.
Dagur 3, mánudagur, 6. september 2021
Snemma morguns liggur leiðin út á flugvöll og flogið er frá Karió til Aswan.
Síðan verður haldið í spennandi skoðunarferð um Aswan. Helsta kennileitið eru hinar tvær geysistóru Aswan stíflur sem byggðar voru við efstu flúðir Nílar. Fyrstu ráðagerðir um stíflugerðina voru undir lok 19. aldar og Bretar reistu fyrstu stífluna árið 1902. Hún reyndist allt of lág og var hún hækkuð í tvígang án árangurs. Þá var ákveðið að reisa aðra stíflu ofar í ánni. Eftir byltingu Nassers 1952 virtust þær áætlanir í sjónmáli og Bandaríkjamenn og Bretar buðu lán til verksins. Erjur á svæðinu urðu til þess að Bretar og Bandaríkjamenn drógu lánsloforð sitt til baka. Nasser ákvað þá að þjóðnýta Súez-skurðinn, sem dró dilk á eftir sér, en tekjurnar af honum nýttu egypsk stjórnvöld þó til að ýta framkvæmdum úr vör. Sovétmenn komu síðan Egyptum til hjálpar með myndarlegri peningagjöf og stíflan varð að lokum hönnuð af Kremlarbúum. Framkvæmdir hófust árið 1960 og miðlunarlónið náði fullri hæð árið 1976. Tilgangurinn með stíflugerðinni var að jafna vatnsmagnið í Níl og binda endi á flóð- og þurrkatímabil, auk þess að framleiða rafmagn og veita vatni í áveitukerfi til jarðræktar. Við skoðum þessa miklu framkvæmd sem hefur haft mikil jákvæð áhrif á egypskt samfélag.
Þá verða heimsótt Philae hofin sem eru um 12 km frá Aswan. Philae hofin eru tileinkuð gyðjunni Isis, sem hafði mörg hlutverk, m.a. stýringu helgisiða sem tengdust dauða, hún lífgaði framliðna, læknaði veika og var fyrirmynd móðurhlutverksins. Hofin hafa þá einstöku sögu að þangað komu pílagrímar um margra alda skeið; Egyptar, Grikkir og Býsans-búar frá Aust-rómverska keisaradæminu ( 395-1453 e. Kr.). Til að koma í veg fyrir að hofin færu á kaf við stíflugerðina í Níl voru þau hlutuð sundur og flutt ofar þar sem þau voru reist óbreytt, stein fyrir stein. Verkið var framkvæmt og kostað af UNESCO, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Eftir skoðunarferðina mun hópurinn fara um borð í fljótaskipið Ms Nile Style, Crown Jubilee, og gista um borð um nóttina.
- Innifalið: Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Dagur 4, þriðjudagur, 7. september 2021
Eldsnemma um morguninn (um kl. 4:00) verður í boði (ekki innifalin) ferð á vit einna mögnuðustu fornleifa sem forn-egyptar skildu eftir sig; Abu Simbel hofin. Þangað er um 3ja klst akstur hvora leið (300 km.) og ferðin tekur um 8-9 klst. Fyrir ferðinni fer enskumælandi fararstjóri. Verð ferðarinnar er um 17.950 kr. á mann og ferðina verður að panta og greiða fyrir a.m.k. 3 vikum fyrir brottför frá Íslandi.
Abu Simbel hofið, sem er stutt frá súdönsku landamærunum, eru sannarlega einar mögnuðustu og tilkomumestu leifar frá gullöld Egypta. Hér er um að ræða tvö musteri sem upphaflega voru höggvin inn í steinklett á 13. öld f.Kr. og fyrir verkinu stóð hinn sögufrægi faraói Ramses II og drottning hans, Nefertari. Verkið var til minningar um frækinn sigur í bardaga hers Egypta undir hans stjórn á Hittítum en bardaginn er kenndur við Kadesh sem í dag er á landamærum Líbanon og Sýrlands. Hofin í Abu Simbel eru frægust fyrir 4 risa stórar styttur í mannsmynd (20 m. háar) sem standa (eða sitja öllu heldur) við innganginn í hofið. Allar stytturnar eru af Ramses II með mismunand einkennum sem vísuðu til þess að hann væri faraói allra Egypta. Innandyra eru styttur sem gæta hofsins og hafa það einkenni flestra forna hofa á þessum slóðum að þau þrengjast eftir því sem innar dregur. Upprunaleg staðsetning Abu Simbel var mun neðar en nú er. Þegar Nílar-stíflan var í bígerð var ljóst að Abu Simbel hofin myndu færast á kaf. Því var það hluti af UNESCO-áætluninni að bjarga þessum einstöku forminjum með því að færa þau ofar Því voru hofin og allt það sem þeim fylgdi hlutuð í sundur og færð á núverandi stað og þess gætt að allt yrði eins á nýja staðnum eins og það var á þeim gamla. ATHUGIÐ að til að taka myndir í Abu Simbel þarf að kaupa “myndaleyfi” sem kostar u.þ.b. 18 usd.
Fyrsti viðkomustaður á siglingunni verða Kom Ombo hofin, sem standa á Nílarbökkum. Kom Ombo hofin eru í yngra lagi og voru byggð 180-47 f. Kr. Þau eru einstök að því leiti að þau eru tvöföld og spegilmynd hvors annars, þ.e. salir, gangar, helgistaðir og aðrir íverustaðir voru eins byggðir í tveimur einingum og hvor um sig var tileinkuð einum guði. Önnur byggingin var musteri krókódílaguðsins Sobek, frjósemisguði og skapara heimsins. Hin byggingin var helgihús fálkaguðsins Hórusar, sonar Isis og Ósíris en þau voru systkin. Hlutverk Hórusar breyttist eftir því sem tímar liðu en helst er hann kenndur við himinhvolfið. Sannarlega kyngimagnaður staður!
Eftir heimsóknina í Kom Ombo heldur siglingin áfram til Edfu yfir nóttina.
- Innifalið: Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Dagur 5, miðvikudagur, 8. september 2021
Edfu hofið er eitt best varðveitta musteri forn-Egypta. Það var byggt á árunum 237-57 f. Kr. þegar Grikkir og nágrannar þeirra, Makedóníumenn, og enn seinna Rómverjar, höfðu erft Egyptaland eftir fráfall Alexanders mikla árið 323 f. Kr. Upphaflega var hofið tileinkað egypska guðinum Hórusi en fljótlega tók gríski guðinn Apollo hofið yfir, en Grikkir samsömuðu Apollo við Hórus. Á veggjum hofsins eru margar áritanir sem lýsa í smáatriðum byggingu þess og gefa margskonar upplýsingar um tungumál, trúarbrögð og dulmögn í Egyptalandi á tímum Grikkja. Tilbeiðsla í Edfu rann út í sandinn þegar Þeódósíus Rómarkeisari bannaði öll önnur trúarbrögð en Kristni á 4. öld e. Kr. Sú var raunin um mörg þau musteri sem voru enn við lýði í Egyptalandi og kristinn múgur rústaði fjölmörgum öðrum tilbreiðslum fornra trúarbragða. Af einhverjum ástæðum var musterunum í Edfu hlíft og þau féllu í gleymskunnar dá uns þau fundust á ný í sandinum árið 1860.
Eftir skoðunarferðina mun skipið sigla áfram til Luxor og leggjast þar að bryggju síðla kvölds. Farþegar munu gista næstu nótt um borð.
- Innifalið: Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Dagur 6, fimmtudagur, 9. september 2021
Eftir morgunverð liggur leiðin að Karnak hofrústunum, skammt norður af Luxor, sem líklega eru tilkomumestu, fjölbreyttustu og sannarlega stærstu rústir hins forna Egyptalands. Hofsvæðið samanstendur af fjórum musterum sem teygja sig yfir um 250 ekrur lands (1 ekra = ca. 4.000 ferm.) og er afrakstur uppbyggingar fjölmargra kynslóða í yfir 1700 ár, u.þ.b. frá 2050-300 f. Kr. Nú er aðeins einn hluti svæðisins opinn fyrir gestum og sá er tileinkaður sólguðinum Amon-Ra. Karnak er næst vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Egyptalandi (næst á eftir Giza-píramídunum).
Hádegisverður verður snæddur á veitingastað í borginni.
Innritun á Steigenberger Resort Achti Luxor
- Innifalið: Morgunverður og hádegisverður.
Dagur 7, föstudagur, 10. september 2021
Þessi dagur verður viðburðaríkur og fróðlegur enda er Luxor stútfull af forvitnilegum og glæsilegum fornminjum. Fyrsti viðkomustaðurinn er Dalur konunganna. Hér voru teknar steingrafir í tveimur dölum, eystri og vestari, á tímabilinu 16.-11. öld f.Kr. fyrir látna faraóa og æðstu embættismenn. Þegar síðustu (að talið er) grafir fundust árið 2008 hvíla hér jarðneskar leifar 63 forn-Egypta. Hinar konunglegu grafir eru skreyttar hvelfingar þar sem m.a. fundust ýmsir hlutir og tól sem gott var fyrir faraóanna að hafa með sér yfir móðuna miklu. Illu heilli hafa grafarræningjar gert sig heimakomna í flestum grafanna en þær gefa þó góða mynd af grafsiðum fornra tíma.
Næst liggur leið að grafhýsi Hatseput faraós en hún var önnur af tveimur konum sem komust til æðstu metorða. Hatseput var faraó um hálfrar aldar skeið 1507-1458 f. Kr. en hafði í raun stjórnað ríkinu í umboði barnungs sonar síns, Tútmosar III, nokkur ár á undan. Faðir hans, Tútmos II , var eiginmaður og jafnframt hálfbróðir Hatseputar . Sérfræðingar í sögu forn-Egypta telja að Hatseput hafi verið einn farsælasti faraó Forn-Egypta og margir benda einnig á að hún sé fyrsta nafngreinda kona mannkynssögunnar. Stjórnarár Hatsputar voru miklir framkvæmdartímar í Egyptalandi og m.a. reisti hún sér stórt og tignarlegt minningarhof skammt frá Dal konunganna sem haldist hefur í ótrúlega góðu ásigkomulagi, þótt skrautgarðar á hverjum stalli séu fyrir bí.
Frá minningarhofi Hatseputar liggur leiðin að risastyttum Memnons sem reistar voru á valdatíma Amenhoteps III faraós um 1350 f. Kr. og voru hluti af minningarhofi hans. Memnon var ein af hetjum Trójustríðsins og var konungur í Eþíópíu sem leiddi her sinn alla leið til Tróju á strönd Tyrklands í dag til að verja borgina fyrir árás Grikkja. Stytturnar, sem eru um 18 m. háar og vega hvor um sig 720 tonn, voru mótaðar í steinnámu nærri Cairó og fluttar landleiðina um 700 km leið því þær voru of þungar til að hægt væri að fleyta þeim upp Níl. Stytturnar hafa látið á sjá en Rómverjar reyndu að lagfæra þær og því sýnast stytturnar ekki vera gerðar úr einni steinblokk sem var raunin í upphafi.
- Innifalið: Morgunverður og hádegisverður.
Dagur 8, laugardagur, 11. september 2021
Eftir morgunverð tekur við rútuferð til strandbæjarins Hurghada við Rauða hafið. Innritum okkur inn á Hotel Continental Hurghada. Á þessu hóteli er fullt fæði innifalið og innlendir drykkir. Ath áfengi er ekki innifalið. Það sem af er að degi er frjáls tími til að njóta og slaka á.
- Innifalið: Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Dagur 9, sunnudagur, 12. september 2021
Þessi dagur er frjáls enda margt að melta eftir ferð síðustu daga. Hurghada er vinsælasti ferðamannastaður Egyptalands og af mörgu að taka.
- Innifalið: Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Dagur 10, mánudagur, 13. september 2021
Frjáls dagur
- Innifalið: Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Dagur 11, þriðjudagur, 14. september 2021
Eftir morgunverð verður flogið frá Hurghada til Kaíró þar sem innritað verður inn á Steigenberger El- Tahir.
Þennan dag verður hadið á vit leyndardóma Kairóborgar. Fyrsti viðkomustaður er Amr Ibn Alas moskan sem er elsta moska Afríku, fyrst byggð árið 642 e.Kr. en vegna stöðugrar endurnýjunar gegnum aldirnar er ekkert eftir af upprunalegu byggingunni. Þá liggur leið að Hangandi kirkjunni sem er ein elsta kirkja Egypta og tilheyrir söfnuði Kopta. Nafnið sækir kirkjan til þess að hún er byggð ofan á Babylon virkinu en kirkjan á þó ekkert skylt við hangandi garða Babylon sem Grikkir skráðu sem eitt sjö undra veraldar. Garðarnir voru í Babylonborg sem stóð þar sem nú er íraskt land. Frá kirkjunni verður haldið í Ben Ezra sínagóguna sem er aldagömul frá 9. öld og byggir á grunni enn eldri kirkju sem byggð var á 4. öld. Í kjallara sínagógunnar fundust hin frægu Genizah skjöl sem eru safn 300.000 gyðinglegra skjala sem ráku sögu gyðinga á tímabilinu 870 og fram á 19. öld. Að hádegisverði loknum liggur leið á Egypska safnið þar sem til sýnis eru yfir 120.000 hlutir og minjar frá síðustu 5000 árum. Hér má m.a. skoða múmíur, styttur og muni af margvíslegu tagi og ein deild safnsins er tileinkuð Tutamkhamon faraó sem lá í grafhýsi sínu í 3.500 ár ásamt fjársjóði, gulli og skartgripum.
Um kvöldið tekur við síðasta skoðunarferðin sem er heimsókn á Khan El Khalili basarinn sem er elsti (settur á stofn árið 970) og frægasti markaður Mið-Austurlanda og þótt víðar væri leitað. Hér má gera reyfarakaup og rétt verð ræðst af sannfæringarkrafti viðskiptavina og kaupmanna.
- Innifalið: Morgunverður og hádegisverður.
Dagur 12, miðvikudagur, 15. september 2021
Um hádegisbil verður farið upp á flugvöll. Flug með Lufthansa frá Kairó kl 15:40-20:10 til Frankfurt. Framhaldsflug til Keflavíkur með Lufthansa kl 21:50-23:30.
Verð og dagsetningar
Athugið
- Athugið að ef til þess kemur að Úrval Útsýn þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.
- Athugið við bókun að gefa upp nafn eins og það er í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.
- Staðfestingargjald er 80.000 kr. og er óendurkræft.
- Lokagreiðsla skal fara fram 10 vikum fyrir brottför
- Senda skal Úrval-Útsýn afrit af myndaopnu vegabréfs a.m.k. 30 dögum fyrir brottför.
- Kynningarfundur verður haldinn 4-6 vikum fyrir brottför.
- Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
- Lágmarksþátttaka er 20 manns og áskilur Úrval Útsýn sér rétt að fella niður ferðina náist sú þátttaka ekki.