Úrval Útsýn býður upp á ferð til Thailands en landið hefur verðið rómað fyrir fegurð, fjölbreytni og einstaka gestrisni heimamanna. Það er óhætt að segja að Thailand sé ævintýri líkast: Hvítar strendur, villtir regnskógar, frumstæðir ættbálkar, fílahjarðir, búddamusteri, stórbrotin menning og framandi matargerð – Þetta allt og svo miklu meira finnur þú í Thailandi!
Ferðin hefst í Hua Hin en þar verður dvalið í sjö nætur og þá verður haldið til Bangkok þar sem gist verður í þrjár nætur. Íslenskur fararstjóri verður með hópnum allan tímann. Flogið verður með Finnair frá Íslandi til Helsinki og áfram til Bangkok.
Hua Hin er strandbær rúmlega 200 km suður af Bangkok, við vestanverðan Síamsflóann. Strandlengjan er misbreið allt eftir því hvort er flóð er eða fjara. Á stangli eru stórir steinar eða lágir klettar en milli þeirra er hvítur og mjúkur sandur. Af þessu hlaut bærinn nafnið Hua Hin sem merkir steinaröð. Í kjölfar þess að konungurinn Rama VII reisti sér sumarhöll við ströndina árið 1928 tóku almennir borgarar að venja komur sínar þangað og vinsældir staðarins jukust hröðum skrefum.
Í dag er Hua Hin vinsælasti sumardvalarstaður heimamanna. Bærinn sameinar sjarma gamla fiskimannabæjarins og nútímalega ferðamannaaðstöðu með hótelum, veitingastöðum, verslunum og mörkuðum. Ströndin er 8 km löng og hótelin teygja sig eftir strandlengjunni. Víða er að finna aðstöðu fyrir vatnasport og aðra afþreyingu en einnig eru góðir golfvellir í nágrenninu. Víst er að engum á eftir að leiðast í Hua Hin.
Hótelið í Hua Hin
Gist verður á Amari Hua Hin í 7 nætur þar sem morgunverður er innifalinn. Meðan á dvölinni stendur er hægt að njóta lífsins í sólinni, fara í kynnisferðir um nágrennið með fararstjóra eða gera það sem hugurinn girnist. Fararstjóri kynnir þá möguleika sem í boði verða á staðnum. Meðal annars er vatnsleikjagarðurinn Vana Nava Hua Hin stutt frá hótelinu.
Fyrsta kvöldið á hótelinu verður sameiginlegur kvöldverður.
Ekki missa af í Hua Hin
Næturmarkaðinum
Snorkla á eyjunni Talu
Ferðast um á fílsbaki
Tælensku nuddi
Sam Pan Nam fljótandi markaðinum
Skraddarasaumuðum fötum
BANGKOK
Höfuðborgin Bangkok hefur upp á ótal margt að bjóða; stórkostleg menningarverðmæti, óstöðvandi skemmtun, endalausa verslun auk óteljandi veitingahúsa. Þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Bangkok er stærsta borg Thailands og er hún miðstöð stjórnunar, fjármála, menningar og menntunar. Íbúar borgarinnar eru taldir vera um 9 milljónir. Bangkok er í senn þjóðleg og alþjóðleg, afar fjölbreytt og heillandi, en borgarbragurinn, sérstaklega í miðborginni, er hávaðasamur og stundum glundroðakenndur. Ótrúlegt en satt komast allir leiðar sinnar stórslysalaust! En inni á milli eru kyrrir staðir þar sem ríkir hefðbundin ró og íhugun.
Bangkok er borg þar sem gamlir og nýjir tímar mætast. Hér eru gömul Búddahof og fagrar hallir. Chao Pray áin og hin fjölmörgu síki setja ríkan svip sinn á borgina. Segja má að það sé skylda þeirra sem koma hingað í fyrsta sinn að kynnast sögunni sem tvinnast saman við hina ríku trúarhefð og mikilvægi þjóðhöfðingjans, kóngsins. Allir verða að kynnast hinum fræga Floating Market sem er skammt fyrir utan borgina, þar sem ótrúlegustu vörur eru á boðstólum. Í borginni er að sjálfsögðu fjöldinn allur af mörkuðum og glæsilegum verslunarmiðstöðum þar sem gera má kjarakaup. Verðlagið er nefnilega allt annað en við þekkjum.
Hótelið í Bangkok
Bangkok
Anantara Riverside er 5 stjörnu glæsihótel staðsett á fögrum stað á vesturbakka Chao Phraya árinnar umvafið tropical gróðri, með góðu aðgengi til Bangkok borgarinnar. Frí skutluþjónusta (bátur) að Saphan Taksin Skytrain stöðinni. Á hótelinu eru 4 veitingastaðir og 3 barir með setustofum. Heilsulind með allri þjónustu, tennisvellir og lúxus sundlaugasvæði.
Herbergin eru í boutique stíl, fallega og gæðalega hönnuð með flatskjá sjónvarpi, þráðlausu neti, loftkælingu og stórum baðherbergjum með baðsloppum.
Ekki missa af í Bangkok
Grand Palace og Wat Prakeaw
Wat Arun hofinu
Kínahverfinu
Gamla bænum Wat Pho
Damnoen Saduak – fljótandi markaðinum
Öllum mörkuðunum og verslununum.
GOTT AÐ VITA – VEGABRÉF OG BÓLUSETNINGAR
Íslenskir ríkisborgarar þurfa ekki vegabréfsáritun fyrir ferðir til Taílands sem vara 30 daga eða skemur, en gilt vegabréf er nauðsynlegt. Mikilvægt er að gildistími vegabréfs nái sex mánuði fram yfir áætlaða heimkomu. Gott ráð er að hafa ljósrit af fyrstu síðum vegabréfs með í för.
Upplýsingar um bólusetningar má fá á heilsugæslustöðvum en gagnlegar leiðbeiningar er að finna á heimasíðu Landlæknisembættisins. Það er á ábyrgð farþega sjálfra að sjá til þess að með í för sé gilt vegabréf, nauðsynlegar vegabréfsáritanir og bólusetningarvottorð.
Tímamunur: Þegar klukkan er 12 á hádegi á Íslandi, er hún sjö að kvöldi sama dags í Bangkok.
ALMENNT
Lágmarksþátttaka í ferðina er 16 manns.
Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.
Forfallatrygging er ekki í boði í sérferðum ferðaskrifstofunnar.
Verð og dagsetningar
Innifalið í verði:
Flug fram og til baka, flugvallagjöld og skattar, ferðataska og handfarangur, gisting, fararstjórn, gisting í Hua Hin í sjö nætur, gisting í Bangkok í þrjár nætur, morgunverður í tíu daga, kvöldverður á fyrsta og loka degi ferðar, akstur frá flugvelli að hóteli í Hua Hin, akstur frá hóteli í Hua Hin til Bangkok, akstur frá Bangkok að flugvelli, og íslenskur fararstjóri.