Allar ferðir

Marrakesh – nafnið eitt kallar fram minningar úr 1001 nótt. Iðandi og kraftmikil borg sem er einstök í sinni röð, litríkur og seiðandi menningarheimur, óræður ilmur, ólgandi líf en samt róandi andi. Rauða borgin er hún nefnd vegna roðalitra virkisveggja sem staðið hafa umhverfis gömlu borgina frá 13. öld. En rauði liturinn er aðeins einn … Continue reading “Marrakesh”

Marrakesh – nafnið eitt kallar fram minningar úr 1001 nótt. Iðandi og kraftmikil borg sem er einstök í sinni röð, litríkur og seiðandi menningarheimur, óræður ilmur, ólgandi líf en samt róandi andi. Rauða borgin er hún nefnd vegna roðalitra virkisveggja sem staðið hafa umhverfis gömlu borgina frá 13. öld. En rauði liturinn er aðeins einn af óteljandi litbrigðum í hinu ótrúlega litrófi Marrakesh.

Medina og Gueliz

Marrakesh

Borgin skiptist í tvennt. Annars vegar gamla borgarhlutann, Medina (samheiti yfir arabahverfi í norður-afrískum borgum), og hins vegar nýja hlutann sem svipar meira til vestrænna borga og kallast Gueliz eða Ville Nouvelle. 

Marrakesh

Gamla borgin er óskipulögð og ruglingsleg með fjölda þröngra gatna og stíga sem eru fullir af lífi, verslunum, kaffihúsum og götusölum en ekki má gleyma markaðstorgunum þar sem kaupgleðin nær hámarki; pýramídafjöll af allskyns kryddi, úrval minjagripa, nýofin teppi í þúsundatali og skildi heilladís búa í einum af hundruðum silfurlampa í boði? Gott að rifja upp listina að prútta! Og skarkalinn og umferðin nær hámarki á Jemaa el-Fna, stærsta torgi Afríku, þar sem atgangurinn er oftar en ekki mörgum sinnum meiri en á stærstu torgum Evrópu á háannatíma! Sögurnar af Marrakesh ljúga engu!